Fara í efni

Sköpun barna í máli og myndum í þriðjudagsfyrirlestri

Kristín Dýrfjörð.
Kristín Dýrfjörð.

Í dag, þriðjudaginn 3. mars kl. 17-17.40, heldur Kristín Dýrfjörð, dósent við Háskólann á Akureyri, fyrirlestur í Ketilhúsinu í fyrirlestraröðinni Þriðjudagsfyrirlestur undir yfirskriftinni Hugarflandur í heimi leikskólans.

Í fyrirlestrinum fjallar Kristín um sköpun barna í máli og myndum. Hún tekur dæmi um „samtal“ barna við listir og hvernig listamenn og börn hafa tekist á við svipaðar hugmyndir í gegnum tíðina. Einnig verður fjallað um hlutverk leikskólakennara sem sumir tengja við sviðsfólkið í leikhúsinu – sem er ósýnilegt en ekkert leikrit verður til án sviðsfólksins.

Kristín Dýrfjörð er leikskólakennari að mennt en hefur kennt við Háskólann á Akureyri í yfir 20 ár. Sköpun í leikskólum hefur verið henni hugleikin í áratugi. Fyrir um 30 árum síðan leiddi hún eitt fyrsta þróunarverkefni í leikskólum sem fjallaði um sköpun og umhverfi. Kristín var einn höfunda hugmyndar um kennslu í vísindasmiðju við Háskólann á Akureyri, en þar er blandað saman hugmyndafræði leikskóla við m.a. listir og vísindi og hefur hún leitt það námskeið frá upphafi.

Þriðjudagsfyrirlestrarnir eru samstarfsverkefni Listasafnsins á Akureyri, VMA, Gilfélagsins, Myndlistarfélagsins og Háskólans á Akureyri.