Fara í efni

Skólameistarar á tímamótum

Bernharð og Hjalti Jón, skólameistarar VMA.
Bernharð og Hjalti Jón, skólameistarar VMA.

Um þessar mundir eru tímamót hjá bæði Hjalta Jóni Sveinssyni, núverandi skólameistari VMA, og Bernharð Haraldssyni, fyrrverandi skólameistari VMA. Eins og fram hefur komið hefur Hjalti Jón verið ráðinn í stöðu skólameistara Kvennaskólans í Reykjavík  og tekur hann við því starfi 1. janúar 2016. Bernharð stefnir einnig suður á bóginn, í næstu viku mun hann flytjast búferlum til Reykjavíkur ásamt eiginkonu sinni, Ragnheiði Hansdóttur. Skólameistararnir tveir hittust í VMA í gær og þá var þessum myndum smellt af þeim.

Verkmenntaskólinn á Akureyri fagnaði þrjátíu ára afmæli á síðasta ári. Bernharð var settur skólameistari 1. júní 1983 en skólinn var formlega stofnaður ári síðar, 1. júní 1984, og fyrsta skólasetningin var 1. september sama ár. Til að byrja með var starfsemi skólans ekki nema að litlu leyti á Eyrarlandsholti en smám saman færðist hún þangað eftir því sem skólahúsnæðið stækkaði. Í það heila má segja að byggingarsaga VMA hafi spannað um þrjá áratugi. Hús málmsmíðadeildar var fyrsta húsið í húsaþyrpingu skólans og var það vígt 21. janúar 1983.

Sem fyrr segir var Bernharð Haraldsson settur skólameistari VMA árið 1983 og sat hann í embætti til loka skólaársins 1999 er hann lét af störfum. Skólaárið 1988-1989 var Bernharð í orlofi í Kaupmannahöfn þar sem hann las hagræna landafræði og var Baldvin J. Bjarnason, aðstoðarskólameistari, starfandi skólameistari það skólaár. Í það heila var Bernharð Haraldsson skólameistari  VMA í sextán ár.

Hjalti Jón Sveinsson tók við starfi skólameistara VMA árið 1999 og mun sem fyrr segir láta af því starfi um komandi áramót og hefur þá gegnt því í hálft sautjánda ár. Skólaárið 2011-2012 var Hjalti Jón í námsleyfi og nýtti þann vetur til náms í menntunarfræðum við Háskólann á Akureyri. Sigríður Huld Jónsdóttir, aðstoðarskólameistari, var skólameistari VMA þann vetur.

Innan fárra vikna verður nýr skólameistari VMA ráðinn til starfa og mun hann hefja störf 1. janúar 2016. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur auglýst starfið laust til umsóknar og er umsóknarfrestur til og með nk. þriðjudegi, 3. nóvember.