Fara í efni

Skiptir máli að flokka sorp?

Athyglisverðar upplýsingar komu fram.
Athyglisverðar upplýsingar komu fram.

Hvað verður um sorpið okkar? Þetta var ein af þeim spurningum sem Helgi Pálsson, rekstrarstjóri Gámaþjónustu Norðurlands, leitaðist við að svara í fyrirlestri sem hann hélt í VMA í gær. Fyrirlesturinn var liður í þemavikunni í skólanum þar sem umhverfismál frá ýmsum hliðum eru viðfangsefnið. Hér eru glærur sem Helgi varpaði upp í fyrirlestrinum. 

Helgi sagði að Gámaþjónustan starfaði á svæðinu frá Ólafsfirði og austur í Ásbyrgi og fyrirtækinu hafi mjög vaxið fiskur um hrygg á síðustu árum. Nú eru 42 stöðugildi í fyrirtækinu, sem segir töluvert um umfangið og hraðan vöxt í flokkun sorps og úrvinnslu þess í verðmæti.

Á síðasta ári flutti Gámaþjónusta Norðurlands út 2.800 tonn til endurvinnslu. Til urðunar á urðunarstað milli Skagastrandar og Blönduóss fóru um 8.000 tonn en lífrænn úrgangur til moltugerðar hjá Moltu í Eyjafjarðarsveit var 2.750 tonn. Til samanburðar fóru um 20 þúsund tonn af sorpi í urðun á Glerárdal, ofan Akureyrar, fyrir hálfum öðrum áratug. Árangurinn er því ótvíræður, mun minna fer til urðunar en á árum áður.

Helgi segir að almennt vandi Akureyringar sig við flokkun á sorpi og á landsvísu séu grenndarstöðvarnar í bænum, sem eru ellefu talsins, einstakar. Hins vegar sagði hann að eftir að hafa kynnt sér sorp- og endurvinnslumál í VMA sé augljóst að þar megi gera mun betur. Hann sagði að á síðasta ári hafi heildarmagn sorps í VMA numið um 25 tonnum, þar af hafi 60% verið blandaður úrgangur en það hlutfall þyrfti að vera 42%. Miðað við að hellt sé upp á 45 kaffikönnur í VMA á dag, sem er ekki fjarri lagi, falla til um 39 kg af kaffikorgi á viku eða á þriðja tonn á ári. Að öllu samanlögðu sagði Helgi að átaks í flokkun sorps væri þörf í VMA og upplýsti Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari í gær að í slíkt átak yrði ráðist, ákveðið væri að VMA færi í samstarf við Gámaþjónustu Norðurlands um úrbætur í umhverfismálum í skólanum.