Fara í efni

Fjórir skiptinemar í VMA

Frá vinstri: Adele, Maja, Eva og Kippei.
Frá vinstri: Adele, Maja, Eva og Kippei.

Eins og jafnan áður eru skiptinemar við nám í VMA. Að þessu sinni eru þeir fjórir og koma frá jafnmörgum löndum, tveir nemanna verða hér til 1. desember en hinir tveir í allan vetur.

Skiptinemarnir fjórir eru Eva Plesingrova frá Tékklandi (verður 18 ára nk. föstudag), Kippei Kondo frá Japan (18 ára), Adele Galiegue frá Frakklandi (16 ára) og Maja Fiedler frá Þýskalandi (15 ára). Öll komu þau fyrr í þessum mánuði til Íslands í gegnum skiptinemasamtökin AFS en rösklega þrjátíu skiptinemar koma að þessu sinni til landsins í gegnum AFS á Íslandi. Eva og Kippei, þau tvö eldri, dvelja hér í tíu mánuði en yngri stúlkurnar verða hér í þrjá mánuði.

Þessir fjórir skiptinemar eru í fjölbreyttu námi í VMA í vetur, sumt þekkja þeir úr námi í sínum heimalöndum en annað er alveg nýtt fyrir þá. Margt er að vonum framandi en eftir að hafa dvalið hér á landi í röska tíu daga má heyra að skiptinemarnir eru nú þegar farnir að læra íslensku. 

Öll eru þau sammála um að þau hafi vitað fátt um Ísland áður en þau komu en hafi vissulega séð margar undurfagrar landslagsmyndir sem hafi vakið áhuga þeirra. Til viðbótar við náttúruna hafi þeim fundist áhugavert að kynnast menningunni á Íslandi, á þessari eyju langt norður í Atlantshafi. Og nú þegar hefur íslenska skyrið vakið lukku og framandi réttir eins og lambakjöt og plokkfiskur hafa verið á borðum.

Eitt eru þau öll sammála um að sé nokkuð frábrugðið því sem þau eigi að venjast frá þeirra heimalöndum; hér sé frjálsræðið á margan hátt mun meira.