Fara í efni

Skiptifatasláin lifir góðu lífi

Skiptifatasláin á C-gangi VMA.
Skiptifatasláin á C-gangi VMA.

Fyrir um tveimur árum fengu kennararnir í hársnyrtiiðn, Harpa Birgisdóttir og Hildur Salína Ævarsdóttir, þá hugmynd að setja upp skiptifataslá á C-gangi skólans, fyrir utan húsnæði hársnyrtiiðnar. Í upphafi renndu þær blint í sjóinn með hugmyndina en fljótlega kom á daginn að margir nýttu sér að koma með föt sem þeir hafa ekki lengur not fyrir og grípa mögulega eitthvað annað af slánni.

Skiptifatasláin lifir enn góðu lífi á C-ganginum og ef eitthvað er hefur hún sótt í sig veðrið í vetur og nú er þar eitt og annað nytsamlegt sem bíður eftir því að skipta um eigendur. Harpa ítrekar að hér sé ekki verið að selja föt, þetta sé eingöngu skiptislá. Fólk kemur með föt sem það hefur ekki not fyrir lengur, í þeirri von að þau nýtist öðrum - og Harpa tekur fram að hér sé bæði verið að höfða til nemenda og starfsfólks. Það eina sem þurfi að virða sé að koma með eingöngu hrein föt og þau séu í nothæfu standi.

Sannarlega rímar skiptisláin vel við aukna áherslu á endurnýtingu á öllum mögulegum hlutum, ekki síst fatnaði. Þetta er stórt umhverfislegt mál og það hefur oft komið fram í umræðunni á síðustu misserum og árum að æ fleiri nýta sér nytjamarkaði, þar sem hægt er að kaupa notaða hluti fyrir ekki nema brot af því sem nýir kosta. Fjallað var um þetta í fréttum RÚV í vikunni.

Nytjamörkuðum hefur fjölgað mjög á undanförnum árum hér á landi. Lengri hefð er fyrir þeim víða erlendis en hér hafa þeir verið að sækja í sig veðrið. Hér á Akureyri má t.d. benda á Rauða krossinn, Hertex og Fjölsmiðjuna.