Fara í efni

Skemmtilegt og gefandi starf

Rúnar Freyr Rúnarsson stuðningsfulltrúi í VMA.
Rúnar Freyr Rúnarsson stuðningsfulltrúi í VMA.

Rúnar Freyr Rúnarsson eða Rúnar Eff eins og margir þekkja hann úr tónlistargeiranum hefur starfað sem stuðningsfulltrúi í starfsdeild Verkmenntaskólans í tæpt ár. Hann hóf störf um síðustu áramót og starfaði sem stuðningsfulltrúi á vorönn og aftur núna á haustönn. Hann þekkir vel til slíkra starfa því hann annaðist liðveislu í sjö ár og starfaði á sambýli í tæp tvö ár.

„Þetta er virkilega skemmtilegt starf. Vissulega getur það oft verið mjög krefjandi og þolinmæði og jákvæðni verður að vera til staðar en umfram allt er þetta skemmtilegt og gefandi starf,“ segir Rúnar og bætir við að númer eitt, tvö og þrjú gangi það út á mannleg samskipti.

Rúnar er í hlutastarfi sem stuðningsfulltrúi í VMA, hann vinnur þar fyrri part dags en seinni part dagsins segist hann nýta til tónlistarsköpunar. „Í mörg ár starfaði ég eingöngu við tónlist og það stóð svo sem ekki annað til en að halda áfram á þeirri braut. En þegar mér bauðst þetta starf um síðustu áramót sló ég til og sé ekki eftir því. Mér finnst mjög gott að blanda þessu saman. Stundum tek ég gítarinn með og spila fyrir krakkana og syng með þeim. Það virkar alltaf vel. Í tónlistinni kem ég oft fram einn með gítarinn eða spila í hljómsveitum. Einnig nýti ég tímann til þess að semja og taka upp,“ segir Rúnar Freyr.

Íshokkíið hefur fylgt Rúnari árum saman . Hann hefur spilað íshokkí síðan hann var tólf ára eða í 28 ár og segist oft hafa reynt að hætta en ekki tekist að fullu. „Ég hætti alveg fyrir átta árum en í þrjú skipti tók ég kylfuna aftur niður af hillunni á miðju tímabili. Þegar ljóst varð að Víkingar Skautafélags Akureyrar myndu keppa í Continental Cup, sem er einskonar riðlakeppni meistaraliða í Evrópu, lofaði ég þjálfaranum því að ég myndi spila með liðinu. Við spiluðum í Búlgaríu um daginn og það gekk ljómandi vel,  við unnum alla leikina í riðlinum, við meistaraliðin frá Búlgaríu, Tyrklandi og Ísrael,“ segir Rúnar. Þessi frábæri árangur Akureyringanna á ísnum þýðir að SA Víkingar eru aftur á útleið, þeir tryggðu sér sæti í annarri umferð keppninnar og keppa í næstu viku í Lettlandi við meistaraliðin frá Lettlandi, Úkraínu og Spáni. „Því miður var ég búinn að bóka mig í tónlistinni á þessum tíma og því kemst ég ekki út með strákunum í aðra umferðina. En það kemur þá bara maður í manns stað. Þetta verður vissulega mun erfiðara en í fyrstu umferðinni, sérstaklega eru Lettarnir og Úkraínumennirnir mjög sterkir,“ segir Rúnar Freyr Rúnarsson.