Fara í efni

Vélstjórn er skemmtilegt nám

Gerður Björg Harðardóttir.
Gerður Björg Harðardóttir.

Gerður Björg Harðardóttir er í hópi nemenda í smíðaáfanga á málmiðnaðarbraut sem gafst kostur á að koma í skólann í verklega kennslu eftir að reglur um samkomubann voru rýmkaðar 4. maí sl. Gerður er nú að ljúka námi á annarri önn í vélstjórn.

Gerður Björk er fædd og uppalin á Einarsstöðum í Reykjadal. Hún hefur lengi haft áhuga á vélum og öllu er lýtur að þeim. Eflaust má færa fyrir því rök að þau gen séu að einhverju leyti til staðar því faðir hennar, Hörður Sigurðsson, er menntaður vélvirki.

Gerður var ekki í vafa hvaða nám skyldi velja þegar hún innritaðist í VMA haustið 2017. Hún fór í grunndeild málmiðnaðar og lauk henni vorið 2018. Einhverjum efasemdarfræjum var þó sáð og í stað þess að halda áfram í einhverri af þeim greinum sem tengjast málmiðnaðinum fór Gerður um haustið 2018 á viðskipta- og hagfræðibraut VMA og var á henni einn vetur. En löngunin til þess að halda áfram í einhverju sem tengdist vélum vék þó ekki frá henni og sl. haust ákvað Gerður að innrita sig í vélstjórn og er nú að ljúka fyrsta árinu þar. Hún segist vera hæstánægð með þá ákvörðun, þetta sé skemmtilegt, fjölbreytt og gott nám sem veiti góða möguleika á vinnumarkaði að því loknu.

Í samkomubanninu var Gerður heima á Einarsstöðum og stundaði þar fjarnám í vélstjórninni í VMA og lagði hönd á plóg við bústörfin en á Einarsstöðum er búið með kindur og hesta. Hún segir að fjarnámið hafi gengið ágætlega, bæði hafi verið um að ræða verkefni og einnig hafi verið kennslustundir á netinu.

Í þessari viku hafa verið rafræn próf og að þeim loknum lýkur skólaárinu.

Gerður segist stefna á að taka öll stig vélstjórnar – til D-réttinda – og einnig horfi hún til þess að bæta við sig því sem þurfi í rafvirkjun til þess að ljúka henni líka.