Fara í efni

Skemmtilegt að skapa

Magnús Amadeus Guðmundsson við verk sitt
Magnús Amadeus Guðmundsson við verk sitt

Magnús Amadeus Guðmundsson segist fúslega viðurkenna að hann hafi verið óráðinn um hvað hann vildi læra þegar hann kom fyrst í VMA árið 2007 – beint úr Lundarskóla. Hann fór á almenna braut og síðan í grunndeild matvælabrautar en fannst hann ekki vera á réttum stað.

„Þegar ég horfi til baka breytti það málunum að ég fékk vinnu á leikskólanum Kiðagili hér á Akureyri og vann þar í um tvö ár. Sú vinna var mjög skemmtileg og opnaði augu mín. Ég fór m.a. að teikna með krökkunum og fór þá að gera eitthvað sem hafði lengi blundað í mér, því alveg frá því að ég var krakki hefur mér fundist gaman að teikna. Ég hafði þó aldrei leitt hugann að því að fara í listnám þegar ég lauk grunnskólanum, fannst það einhvern veginn ekki vera alvöru nám og það myndi gefa mér takmarkaða möguleika. Með auknum þroska fann ég út að þetta átti ekki við rök að styðjast og því ákvað ég gera aðra tilraun haustið 2014 og innritaði mig á listnámsbraut VMA og stefni að því að ljúka námi þar um næstu jól. Ég kem úr fjölskyldu þar sem list af ýmsum toga er í hávegum höfð – leiklist, tónlist og myndlist,“ segir Magnús Amadeus. Eftir á að hyggja segist hann gjarnan hafa viljað byrjað fyrr í listnáminu, en nú er hann 26 ára gamall, en á móti komi að nú sé hann mun þroskaðri en áður og tilbúinn til þess að takast á við krefjandi nám. „Það sem mér finnst standa upp úr í listnáminu hér er að fá að skapa sjálfur, búa til eitthvað sem fangar augað,“ segir Magnús og bætir við að hann hafi fyrir nokkrum árum fengist töluvert við að semja ljóð og texta og með aukinni þekkingu í myndlistinni hafi hann áhuga á að tvinna saman þessi tvö ólíku listform. „Mig langar til þess að skapa minn eigin stíl,“ segir hann.

Hér má sjá akrílverkið „Byrjun“ sem Magnús gerði á námskeiði hjá Björgu Eiríksdóttur sl. haust. Þessi mynd er nú á veggnum gegnt austurinngangi skólans.

Framtíðin að loknu listnáminu í VMA er óráðin en eins og er segir Magnús Amademus að togist á að fara strax í frekara nám á þessu sviði eða ferðast aðeins og sjá sig um í veröldinni.