Fara í efni

Skemmtilegasta námið sem ég hef farið í

Elísabet Sævarsdóttir, veitingastjóri á Strikinu á Akureyri. Mynd: strikid.is
Elísabet Sævarsdóttir, veitingastjóri á Strikinu á Akureyri. Mynd: strikid.is

„Þetta var skemmtilegasta nám sem ég hef farið í,“ segir Elísabet Sævarsdóttir veitingastjóri veitingastaðarins Striksins á Akureyri en hún var í fyrsta námshópnum í framreiðslu sem VMA brautskráði vorið 2023.

Nú er opið fyrir umsóknir um nám í þremur námsgreinum á matvælabraut VMA, framreiðslu, matreiðslu og matartækni, fyrir vorönn 2026. Hvort unnt verður að fara af stað með nám í þessum námsgreinum ræðst af fjölda umsókna.

Lengi hefur verið mikill skortur á fagmenntuðu framreiðslufólki, hér á landi og út um heim. Þetta er afar bagalegt þegar ferðaþjónustan og þar með veitingageirinn hefur verið í jafn miklum vexti og raun ber vitni.

Á haustönn 2022 fór af stað í fyrsta skipti nám í 2. bekk í framreiðslu á matvælabraut VMA. Námshópurinn fór á vorönn 2023 áfram í 3. bekk og nemendur brautskráðust vorið 2023. Reynt var að fara af stað með nýjan námshóp í framreiðslu á vorönn 2024 en það tókst ekki vegna of fárra umsókna. Nú er sem sagt aftur tækifærið til þess að sækja um nám í framreiðslu á vorönn 2026.

Elísabet Sævarsdóttir segist fyrst hafa öðlast reynslu í framreiðslu á Bryggjunni á Akureyri og síðan hafi hún farið yfir á Strikið og þar starfaði hún sem nemi í faginu. Fór síðan í námið í VMA veturinn 2022-2023.

„Námið var alveg frábært og þegar ég horfi til baka til þess var svo mikilvægt að læra alla þá fagmennsku sem þjónar þurfa að kunna skil á. Margir halda að þjónn sé bara þjónn en starfið er miklu viðameira en það. Mér fannst afar mikilvægt að læra hinar ýmsu leiðir í framreiðslu og vínfræðina fannst mér líka afar áhugavert að læra. Og það sem skiptir líka svo miklu máli var hversu frábær námshópur þetta var. Skóladagarnir voru oft langir en það kom sannarlega ekki að sök því námið var allt svo skemmtilegt, mér leiddist ekki eina mínútu,“ segir Elísabet sem hafði lokið stúdentsprófi í fjarnámi við Menntaskólann á Egilsstöðum þegar hún fór í framreiðslunámið.

Að loknu náminu í VMA ákvað Elísabet að víkka út sjóndeildarhringinn og afla sér reynslu á nýjum slóðum. Fékk vinnu sem þjónn á veitingastað í Álaborg í Danmörku og var þar í um eitt ár. Hún segir að þetta hafi verið frábær tími og mikilvægur í reynslubankann. Hún sneri þó aftur til Akureyrar og fór að vinna á veitingastaðnum Múlabergi.

„Málið er að það er lítið mál að fá vinnu sem þjónn hvort sem er hér á landi eða út um allan heim því það vantar alls staðar faglærða þjóna,“ segir Elísabet.

Í mars á þessu ári tók Elísabet að sér starf veitingastjóra á sínum gamla vinnustað, Strikinu. Hún segir að sér hefði ekki boðist slíkt starf nema vegna þess að hún sé fagmenntaður þjónn.

„Starf veitingastjóra er afar vítt og gefandi og tekur til ótrúlega margra þátta. Meðal annars er á mínu borði að panta vörur, þjálfa starfsfólk, gera nýja kokteila, setja saman vínseðla, gera vaktaplön og margt fleira. Það er afar mikilvægt að veitingastjóri vinni vel með kokkunum og vaktstjórunum og auðvitað öllu starfsfólkinu. Góður starfsandi skiptir öllu máli. Auðvitað er þetta mikið ábyrgðarstarf – og sannast sagna er í eðli þess að vera eiginlega alltaf á vakt - en ég nýt þess sannarlega að takast á við það,“ segir Elísabet Sævarsdóttir.