Fara í efni

Skemmtilegast að skapa

Helgi Freyr Guðnason.
Helgi Freyr Guðnason.

Helgi Freyr Guðnason lauk stúdentsprófi af listnámsbraut VMA um síðustu jól en áður hafði hann bæði farið í gegnum grunnnám matvælabrautar og sömuleiðis er hann langt kominn með kjötiðnaðarnám. Hann segir að vissulega sé þetta allt ólíkt en hann hafi haft mikla ánægju af því að prófa að feta mismunandi námsleiðir.

Þessa dagana hangir uppi akrílverk eftir Helga Frey á vegg gegnt austurinngangi VMA, sem hann vann sl. haust.  „Þegar ég byrjaði að mála verkið hafði ég ekki ákveðið nákvæmlega hvað ég ætlaði að kalla fram. Ég hafði gert mér hugmyndir um litasamsetningu og áferð en að öðru leyti hafði ég ekki myndað mér neina ákveðna skoðun á því hver útkoman ætti að vera. Það kannski má segja að í verkinu sé ég að fanga þá stemningu sem var þegar ég málaði það,“ segir Helgi Freyr. „Eflaust hugsa margir sem svo þegar þeir horfa á verkið að þetta sé tómt bull og út í loftið. En það er ekki svo. Það eru heilmiklar pælingar á bak við þetta og engin tilviljun að verkið lítur svona út.“

Hann segir að þegar hann horfi til baka hafi hann lært mjög margt í listnáminu í VMA. Skemmtilegast hafi verið að skapa eitthvað sjálfur. „Ég lærði fjölmargt í listnáminu og það var gefandi og skemmtilegt. Ég get sannarlega mælt með því,“ segir Helgi Freyr.

Sem fyrr segir útskrifaðist Helgi Freyr um síðustu jól og sem stendur er hann að vinna umönnunarstörf hjá Akureyrarbæ. Hann segir óljóst með frekara nám. Ýmislegt komi til greina. Frekara nám á listasviðinu sé spennandi en einnig sé áhugavert að ljúka kjötiðnaðarnáminu, sem hann sé langt kominn með, t.d. hafi hann lokið samningstímanum hjá kjötiðnaðarfyrirtæki. Og það sé líka áhugavert að nú stefni í að VMA fullmennti kokka hér norðan heiða, sem ekki hafi verið boðið upp á til þessa.