Fara í efni

Sjúkraliðanemar í vinnustaðanámi

Frá vinstri: Sara, Katrín Ásta og Tinna Líf.
Frá vinstri: Sara, Katrín Ásta og Tinna Líf.

Starfsnám á vinnustað er hluti náms nemenda á sjúkraliðabraut VMA. Nemendur starfa á öldrunarstofnunum í upphafi fjórðu annar í náminu og á fimmtu og sjöttu önn vinna nemendur inn á sjúkrastofnunum og fá þar innsýn í fjölbreytt starf á ólíkum deildum. Auk þess að taka þessar lotur á vinnustöðum á meðan á náminu stendur þurfa nemendur að ljúka ákveðinni starfsþjálfun eftir fjórðu og sjöttu önn – samtals 27 einingum.

Í janúar sl. voru 28 nemendur á fjórðu og sjöttu önn í sjúkraliðanáminu í vinnustaðanámi. Nemendur á fjórðu önn voru á öldrunarstofnunum á Akureyri og Dalvík. Vinnustaðanámið er almennt þannig upp byggt að nemendur fá leiðsögn starfandi sjúkraliða á viðkomandi stofnunum og fyrstu vikuna fá þeir að fylgjast með og læra, í annarri vikunni vinna nemendur meira þau störf sem fyrir liggja og í þriðju og síðustu vikunni er lögð áhersla á sjálfstæð vinnubrögð þeirra.

Sara Sigmundsdóttir frá Akureyri var á Lögmannshlíð á Akureyri í starfsþjálfun í janúar, Katrín Ásta Bjarnadóttir frá Grímsey var á Dalbæ á Dalvík og Tinna Líf Kristinsdóttir frá Vopnafirði var í vinnustaðanámi sínu á dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri. Allar eru þær sammála um að slíkt verknám sé afar mikilvægur og lærdómsríkur þáttur í náminu.

Þær eru einnig á einu máli um að sjúkraliðanámið sé áhugavert og yfirgripsmikið og margt að læra. Eitt af því snúna sé að leggja öll latnesku nöfnin í sjúkdóma- og líffærafræðinni á minnið!