Fara í efni

Sjö vélaverðir útskrifaðir

Útskriftarhópurinn með kennurum og skólameistara.
Útskriftarhópurinn með kennurum og skólameistara.
Sjö vélaverðir voru í gærkvöld útskrifaðir frá VMA, en þeir hafa að undanförnu setið námskeið sem skólinn býður upp á, þar sem farið er í ýmis grunnatriði í vélstjórn. Námskeiðið veitir réttindi á allt að 750 kW vél og allt að 12 metra langa báta.

Sjö vélaverðir voru í gærkvöld útskrifaðir frá VMA, en þeir hafa að undanförnu setið námskeið sem skólinn býður upp á, þar sem farið er í ýmis grunnatriði í vélstjórn. Námskeiðið veitir réttindi á allt að 750 kW vél og allt að 12 metra langa báta.

Þetta er fjögurra eininga áfangi og eru kennslustundirnar samtals 85. Farið er í grunnatriðin í vélfræði, vélstjórn, rafmagnsfræði, kælitækni og öryggismálum. Að námskeiðinu loknu þreyttu nemendur próf.
Þátttakendur í námskeiðinu höfðu allir að baki reynslu til sjós og voru með námskeiðinu að tryggja sér þessi grunnréttindi. Einn þátttakenda, Símon Ellertsson frá Dalvík, sem er 74 ára gamall, tryggði sér réttindi á allt að 24 metra skip, sem kemur til af því að hann hefur stýrimannamenntun frá fyrri tíð.

Við útskriftina í gærkvöld, sem sex af sjö þátttakendum voru viðstaddir, kom fram að þeir stóðu sig allir með mikilli prýði og einn þeirra útskrifaðist með 10 í einkunn!

Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari, hafði á orði að Símon Ellertsson sannaði það að aldrei væri of seint að skella sér í nám. Alltaf væri hægt að byggja ofan á sína þekkingu og sem fyrr stæði VMA opinn fyrir alla þá sem vildu efla sína menntun og þekkingu. Hjalti Jón sagði að vélstjórnarnámið í VMA væri skólanum mikilvægt og fyrir atvinnulífið á svæðinu væri afar mikilvægt að geta fullnumið vélstjóra í skólanum.

Á þessum myndum, sem voru teknar í gærkvöld, er útskriftarhópurinn að einum þátttakanda frátöldum, sem ekki hafði tök á því að mæta. Á myndinni sem birtist með þessari frétt er útskriftarhópurinn ásamt Hjalta Jóni Sveinssyni skólameistara og vélstjórnarkennurunum Vilhjálmi G. Kristjánssyni og Elíasi Þorsteinssyni. Einnig eru myndir af Símoni Ellertssyni með annars vegar Hjalta Jóni og hins vegar Vilhjálmi og Elíasi.

Að sögn Baldvins B. Ringsted, kennslustjóra tæknisviðs VMA, hefur tvisvar áður verið boðið upp á slíkt námskeið í VMA og segir hann að í það heila hafi um fimmtíu manns tekið þau og náð sér í réttindin sem þau veita. Baldvin segir að boðið verði upp á framhaldsnámskeið á nýju ári, ef næg þátttaka næst, sem veiti réttindi á skip og báta að 24 metrum að lengd. Þetta námskeið verður að óbreyttu auglýst í janúar.