Fara í efni

Sjö í sveinsprófi í vélvirkjun um helgina

Sjö fyrrverandi nemendur VMA þreyttu sveinspróf.
Sjö fyrrverandi nemendur VMA þreyttu sveinspróf.

Sjö fyrrverandi nemendur í VMA þreyttu um helgina sveinspróf í vélvirkjun í húsakynnum VMA. Prófið skiptist í skriflegt próf, sem var sl. föstudag, og verklegt próf, sem var sl. laugardag og í gær.

Sveinspróf í vélvirkjun er í nokkrum hlutum; skriflegt próf, smíðaverkefni, bilanaleitarverkefni, slitmælingarverkefni, suðuverkefni, frágang smíðaverkefnis og vinnuhraði við smíðaverkefnið. Hver prófþáttur er metinn sérstaklega. Til þess að standast sveinspróf þarf próftaki að ná lágmarkseinkunn í öllum þáttum prófsins til að ljúka sveinsprófinu.

Í skriflegu prófi í vélvirkjun er spurt um vélar, loft og vökvakerfi, frystikerfi, öryggisfræði, suðu og lóðningar, verkáætlanir, auk almennra spurninga.

Í verklega hlutanum hefur smíðaverkefnið 45% vægi í einkunn, bilanaleitin vegur 10%, slitmælingarverkefnið 10% og suðuverkefnið 25%.

Próftakarnir sjö – Bjarki Jóhannsson, Guðmundur Heiðar Hauksson, Helgi Halldórsson, Kristján Elinór Helgason, Magnús Aríus Ottósson, Valur Freyr Sveinsson og Ögri Harðarson -  höfðu vinnusemina og einbeitinguna að leiðarljósi í sveinsprófinu. Þessar myndir, sem Hörður Óskarsson, brautarstjóri málmiðnbrautar VMA, tók tala sínu máli.