Fara í efni

Sjallaball og jólabingó

Bingó verður í Gryfjunni 4. desember nk.
Bingó verður í Gryfjunni 4. desember nk.

Félagslífið í VMA hefur verið kröftugt núna á haustönn og efnt hefur verið til hinna ýmsu viðburða og uppákoma í skólanum. Áfram verður haldið á þessari braut og framundan eru tveir viðburðir sem Þórduna og Leikfélag VMA standa fyrir – annars vegar nemendaball í Sjallanum fimmtudagskvöldið 1. desember og sunnudaginn 4. desember er síðan komið að jólabingói í Gryfjunni.

Sjallaball Þórdunu 1. desember

Nýnemaballið í Sjallanum í haust tókst frábærlega vel og nú á að endurtaka leikinn. Að kvöldi fimmtudagsins 1. desember efnir Þórduna til Sjallaballs. Húsið verður opnað kl. 22.

Um tónlistina sjá DJ Dóra Júlía, Ingi Bauer (Ingi Þór Garðarsson) og JóiPé (Jóhannes Patreksson).

Forsala aðgöngumiða er á heimasíðu Þórdunu, í forsölu kostar miðinn kr. 2.500 en almennt er miðaverðið 3.500 kr.

Um þetta ball gildir sem fyrr að ölvun ógildir aðgöngumiðann. Allir framhaldsskólanemar eru velkomnir á ballið.

Þess má geta að föstudaginn 3. desember verður ekki venjubundin kennsla samkvæmt stundaskrá í VMA. Þann dag verða lokaverkefniskynningar nemenda sem útskrifast frá VMA 20. desember nk.

Jólabingó Þórdunu og Leikfélags VMA 4. desember

Þórduna og Leikfélags VMA brydda upp á þeirri skemmtilegu nýbreytni á aðventunni að efna til jólabingós í Gryfjunni sunnudaginn 4. desember kl. 13. Bingóspjaldið kostar eitt þúsund krónur. Að sjálfsögðu verða veglegir vinningar í boði fyrir þá heppnu. Auk bingósins verða veitingar til sölu í Gryfjunni.

Og ef svo ólíklega vildi til að einhver hafi það ekki algjörlega á hreinu hvað bingó er má finna eftirfarandi skilgreiningu á því á Wikipedia:

Bingó er spil þar sem dregnar eru út tölur af handahófi og þær bornar saman við áprentuð spöld með 5X5 reitum. Spjöldin má prenta á pappír, pappa eða geta verið rafræn. Margar útgáfur eru af leiknum sem ganga út á að verða fyrstur að mynda ákveðið mynstur af útdregnum tölum. Sá sem vinnur hrópar orðið „Bingó!“ Þá er farið yfir tölur.