Fara í efni

Á síðustu önn í húsasmíðinni

Nemendur á síðustu önn í húsasmíði.
Nemendur á síðustu önn í húsasmíði.

Nám í húsasmíði til sveinsprófs er fimm annir að meðtöldu grunnnámi byggingargreina á fyrstu önninni. Að loknu öðru árinu, á þriðju og fjórðu önn, þegar nemendur vinna m.a. að því að byggja sumarbústað, er yfirleitt uppihald í námi nemenda í skóla og þeir fara út á vinnumarkaðinn og vinna samkvæmt námssamningi, sem þeir þurfa að ljúka áður en þeir geta þreytt sveinspróf. Þeir koma síðan aftur inn í skólann á fimmtu og síðustu námsönnina sína – og er hún kennd núna á vorönn. Þetta er sem sagt lokaáfangi nemendanna í skóla áður en þeir taka sveinspróf.

Flestir nemendanna á fimmtu önninni eru komnir langt eða hafa jafnvel lokið námssamningum sínum og geta því farið beint í sveinspróf að önninni lokinni – sem er líka það æskilega því hluti af náminu á fimmtu önninni er þjálfun í að smíða sambærilega hluti við algeng sveinsprófsverkefni.

Að þessu sinni eru fimmtán nemendur á fimmtu önn í húsasmíði og það sem þeir læra á önninni – auk þjálfunar fyrir sveinspróf og að vinna lokaverkefni – er m.a. áætlanagerð og gæðastjórnun, áfangi um um framkvæmdir við undirstöður og burðarvirki steinsteyptra bygginga og mannvirkja, teikniáfangi og áfangi í viðhaldi og breytingavinnu, þar sem fjallað er um viðgerðir og endurbætur á eldri byggingum og mannvirkjum úr steini og tré.