Fara í efni

Síðasta sýningin í dag á "Mér er fokking drullusama"

Úr sýningunni. Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson.
Úr sýningunni. Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson.

Í dag kl. 17.30 verður síðasta sýningin á „Mér er fokking drullusama“ - verki Péturs Guðjónssonar og Jóhönnu G. Birnudóttur – Jokku. Höfundarnir leikstýra verkinu, sem sýnt er í Gryfjunni í VMA, en allir aðrir sem koma að sýningunni hafa áður komið við sögu í leiklistinni í VMA. Sýningin er sett upp í samvinnu höfunda, Þórdunu – nemendafélags VMA og skólans.

Verkið var frumsýnt sl. föstudag og síðan sýnt sl. sunnudag, mánudag, í gær og í dag er komið að fimmtu og síðustu almennu sýningunni. Raunar verður verkið sýnt á morgun í VMA fyrir nemendur í lífsleikni

Að sögn Péturs Guðjónssonar, annars tveggja höfunda og leikstjóra verksins, hafa sýningarnar gengið mjög vel og segir hann að efni verksins hafi augljóslega hreyft við mörgum, margir áhorfendur hafi verið með tárin í augunum í lok sýningarinnar. Um er að ræða einþáttung, ca. 15 mínútna langan.

Verkið fjallar um framhaldsskólanemann Svein sem er í óreglu, ofbeldishneigður og lendir oftar en ekki upp á kant við kennara sína. Brugðið er upp svipmynd af augnbliki í lífi Sveins þegar hann lendir í baráttu við sína innri rödd, djöfulinn og samviskuna.

Fjórir leikarar koma fram í sýningunni: Sindri Snær Konráðsson, Steinar Logi Stefánsson, Ragnheiður Diljá Káradóttir og Jara Sól Ingimarsdóttir. Haukur Sindri Karlsson skapar hljóðmynd sýningarinnar á flygilinn í Gryfjunni og Stefán Jón Pétursson sér um lýsingu.

Verð aðgöngumiða á sýninguna er kr. 1000. Miðar eru seldir við innganginn. Ekki verða teknar pantanir á sýninguna. Ef nánari upplýsinga er óskað skulu fyrirspurnir sendar á Pétur Guðjónsson – petur@vma.is. Tekið er fram að ekki er mælt með sýningunni fyrir börn yngri en 12 ára.