Fara í efni

Sex vikna starfsþjálfun í Þrándheimi

Í lok ágúst fóru tveir nemar af hársnyrtiiðn í VMA, Íris Birna Kristinsdóttir og Kristjana Lóa Sölvadóttir, í sex vikna starfsþjálfun á hárgreiðslustofur í Þrándheimi í Noregi. Íris fór í starfsþjálfun á Påhåret Solsidan sem er hluti af stórri hársnyrtikeðju í Noregi, en På Håret rekur 21 stofu víðsvegar um landið. Kristjana fór í starfsþjálfun á stofuna Jakobsli Hårstudio sem rekur tvær stofur í Þrándheimi.

Samstarf VMA við hárgreiðslustofur í Þrándheimi má segja að hafi hafist í framhaldi af samstarfsverkefnum sem skólinn vann með framhaldsskólanum Charlottenlund í Þrándheimi. Að baki liggur sú hugmynd að nemendur taki hluta af sínu starfsnámi utan landsteinanna í gegnum Erasmus+ og fái þannig tækifæri til þess að víkka út nám sitt og fá nýjar hugmyndir.