Fara í efni

Sex í sveinsprófi í vélvirkjun

F.v.: Sigmar, Þór, Jón, Guðlaugur, Lára og Hörður.
F.v.: Sigmar, Þór, Jón, Guðlaugur, Lára og Hörður.

Um helgina þreyttu sex sveinspróf í vélvirkjun í húsnæði málmiðnbrautar VMA, þar af eru fjórir fyrrverandi nemendur VMA.

Þau sem voru í sveinsprófinu eru: Guðlaugur Ingi Þórðarson, Hörður Gauti Viggósson, Jón Gylfi Jónsson, Lára Guðnadóttir, Sigmar Pálsson og Þór Wiium Elíasson. Hörður Gauti, Lára, Sigmar og Þór Wiium tóku nám sitt í VMA. Guðlaugur Ingi var í Borgarholtsskóla í Reykjavík og Jón Gylfi í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki.

Öll starfa þau í sínu fagi; Guðlaugur Ingi og Jón Gylfi eru á KS vélaverkstæði á Sauðárkróki, Sigmar á Kapp ehf. vélaverkstæði í Kópavogi, Þór Wiium og Lára í Slippnum Akureyri og Hörður Gauti á Bílum og vélum ehf. á Vopnafirði.

Sveinsprófið hófst með tveggja tíma skriflegu prófi sl. föstudag þar sem spurt var út í vélar, loft og vökvakerfi, frystikerfi, öryggisfræði, suðu og lóðningar, verkáætlanir, auk almennra spurninga.

Síðastliðinn laugardag og í gær, sunnudag, var verklegt próf frá kl. 08 til 18 báða dagana. Verklegi hlutinn skiptist í smíðaverkefni, bilanaleit, slitmælingarverkefni og suðuverkefni. Við mat á smíðaverkefninu er m.a. horft til frágangs og vinnuhraða.

Hörður Óskarsson, brautarstjóri málmiðnbrautar VMA, tók þessar myndir sl. laugardag af próftökum í verklega hluta sveinsprófsins.