Fara í efni

Setið við vefstólinn

Ívar Malmquist Hoblyn og Borghildur Ína kennari.
Ívar Malmquist Hoblyn og Borghildur Ína kennari.

Nákvæmni, þolinmæði og yfirvegun er gott veganesti þegar setið er við vefstólinn. Þegar litið var inn í rýmið þar sem vefstólarnir eru á listnáms- og hönnunarbrautinni í VMA voru textílnemendur í kennslustund í vefnaði með Borghildi Ínu Sölvadóttur kennara.

Einn af nemendunum er Ívar Malmquist Hoblyn. Hann býr á Akureyri en á rætur sínar á Ísafirði. Hann sagðist hafa farið á listnáms- og hönnunarbrautina í VMA árið 2018 og valið að fara á textíllínuna. Hann segist kunna því vel að vefa, það sé skemmtileg áskorun. „Ég var nokkuð ákveðinn í því að fara ekki í hreint bóknám og valið stóð um að fara á íþróttabraut eða listnáms- og hönnunarbraut. Ég er mjög sáttur við þetta nám,“ segir Ívar.

Nemendurnir voru að vefa trefla þegar kíkt var í heimsókn. Borghildur Ína kennari segir að vefnaðurinn taki sinn tíma og sé nákvæmnisvinna en undirbúningur vefnaðarins taki líka djúgan tíma, í þessu eins og svo mörgu öðru þurfi grunnurinn að vera góður til þess að byggja ofan á.

Þetta er annar áfanginn í vefnaði sem nemendurnir taka. Grunnáfangann tóku nemendur á vorönn 2020 en reyndar setti kórónuveirufaraldurinn þá strik í reikninginn þegar þurfti að loka skólanum seinnipartinn í mars.