Fara í efni

Starfsbraut VMA þátttakandi í Nordplus verkefni

Fulltrúar skólanna samankomnir í Noregi.
Fulltrúar skólanna samankomnir í Noregi.

Á dögunum var í Bergen í Noregi fyrsta vinnuvikan í Nordplus verkefni sex framhaldsskóla á Norðurlöndum sem ber heitið „Continuum skole jobb – for elever með behov for særskilte tilrettelegging“ . Af hálfu VMA er starfsbraut skólans þátttakandi í verkefninu og voru Ragnheiður Gunnbjörnsdóttir, kennslustjóri starfsbrautar, og Rögnvaldur Símonarson, kennari og umsjónarmaður starfsnáms á starfsbraut VMA, fulltrúar skólans í vinnuvikunni í Bergen.

Þátttökuskólarnir eru í þremur Norðurlandanna; Íslandi, Finnlandi og Noregi. Skólarnir eru:
Ísland: VMA og Fjölbrautaskólinn við Ármúla.
Noregur: Askøy Videregående Skole og Sotra Vidaregåande Skule
Finnland: Fl-Luovi Vocational College og Fl-Huittinen Business and Vocational College.

Ragnheiður Gunnbjörnsdóttir segir að strax á þessum fyrsta fundi í verkefninu hafi komið í ljós að það væri afar gagnlegt að hitta fulltrúa frá öðrum skólum og miðla hugmyndum og reynslu. Hún segir að megin áherslur í þessu verkefni sé samvinna skóla og atvinnulífs fyrir nemendur með sérþarfir, hvernig skólarnir undirbúi nemendur sína og hvernig þeim gangi að verða virkir þátttakendur í þjóðfélaginu.

„Samstarf eins og þetta er mjög gagnlegt. Kerfi þátttökuskólanna eru á margan hátt mismunandi og því kynnumst við ýmsu nýju sem við síðan getum mögulega nýtt okkur hér. Við teljum að hér í VMA höfum við þróað gott kerfi fyrir nemendur með sérþarfir því að á þriðja og fjórða ári fara þeir í starfsþjálfun í fyrirtækjum hér í bænum. Samstarfið tekur til um áttatíu fyrirtækja og þau eiga mikið hrós skilið fyrir hversu vel þetta hefur gengið,“ segir Ragnheiður og bætir við að eftir að nemendur útskrifist úr sérdeild VMA  bjóðist þeim úrræði á vegum Akureyrarbær sem kallast „Atvinna með stuðningi“.

Í þessum fyrsta hluta verkefnisins í Noregi var skólaskrifstofan í Hordaland sótt heim og fræðst um hvernig þar eri staðið að málum. Þá kynntu þátttökuskólarnir starfsemi sína og skiptust á skoðunum um verkefnið.

Þrír skólar voru heimsóttir, einn í Bergen, annan í Askøy og þann þriðja í Sotra. Þá voru heimsóttir þrir stórir verndaðir vinnustaðir, Trygger Bakearvågnen, Trygger Hanevik og Trygger Straume. Einnig fengu þátttakendur fræðslu um starfsþjálfunarverkstæði eins og A2G Group og NAV Ungdomskontoret.

Stefnt er að því að fulltrúar þátttökuskólanna í þessu Nordplus verkefni hittist tvisvar í viðbót, annars vegar í febrúar á næsta ári í Finnlandi og hins vegar hér á landi næsta vor.