Fara í efni

Samningar undirritaðir í dag um viðbyggingu og breytingar á húsnæði VMA

Skólameistari, mennta- og barnamálaráðherra og bæjar- og sveitarstjórar sex sveitarfélaga við Eyjafj…
Skólameistari, mennta- og barnamálaráðherra og bæjar- og sveitarstjórar sex sveitarfélaga við Eyjafjörð að lokinni undirritun samnings í dag um 1500 fermetra viðbyggingu við VMA. Myndir: Hilmar Friðjónsson.

Samkvæmt samningi sem var undirritaður í dag verður byggð um 1500 fermetra nýbygging við VMA fyrir verknámsbrautir skólans og þar með verður bætt úr löngu aðkallandi húsnæðisþörf. Ríkið greiðir 60% byggingarkostnaðar og sveitarfélögin við Eyjafjörð 40%.

Samningurinn var undirritaður í Gryfjunni í VMA af Ásmundi Einari Daðasyni mennta- og barnamálaráðherra, Sigríði Huld Jónsdóttur skólameistara, Ásthildi Sturludóttur bæjarstjóra á Akureyri, Eyrúnu Ingibjörgu Sigþórsdóttur sveitarstjóra Dalvíkurbyggðar, Snorra Finnlaugssyni sveitarstjóra  Hörgársveitar, Finni Yngva Kristinssyni sveitarstjóra Eyjafjarðarsveitar, Þórunni Sif Harðardóttur sveitarstjóra Svalbarðsstrandarhrepps og Þresti Friðfinnssyni sveitarstjóra Grýtubakkahrepps. Sigríður Ingvarsdóttir bæjarstjóri í Fjallabyggð var fjarverandi.

Í þessa viðbyggingu, sem mun rísa norðan núverandi skólahúss, við norðvesturhorn þess, færist nám í húsasmíði og bifvélavirkjun. Við það rýmkast um aðrar verknámsbrautir skólans og er ekki vanþörf á því margar námsbrautir hafa lengi búið við afar þröngan kost í húsnæðismálum. Í framhaldi af nýbyggingunni er gert ráð fyrir að nám á rafiðnbraut færist í núverandi húsnæði byggingadeildar, aðstaða námsbrautar í hársnyrtiiðn verður bætt sem og matvælabrautar og vélstjórnar, auk ýmissa annarra hrókeringa í núverandi húsnæði.

Að lokinni undirskrift samningsins í dag liggur fyrir að ráðast í hönnun nýbyggingarinnar og breytinga á núverandi húsnæði og jafnframt verður sett upp tímaáætlun framkvæmda.

Hér má sjá tölvugerðar myndir af frumhönnun viðbyggingarinnar. Tekið skal fram að þetta er ekki endanleg hönnun en gefur hugmynd um fyrirhugaða staðsetningu byggingarinnar og stærð hennar í samanburði við núverandi byggingar skólans.

Sigríður Huld skólameistari sagði að lokinni undirritun samningsins í dag að byggingarsaga skólans spanni ríflega fjóra áratugi og enn sé komið að byggingu nýrrar álmu sem verði afar kærkomin fyrir verknám skólans. Þessi viðbygging og um leið endurskipulagning á eldra húsnæði skólans geri það að verkum að aðstaða verknámsbrauta verði í senn betri og nútímalegri. Sigríður Huld sagðist binda vonir við að þegar þar að kemur gangi hratt og örugglega fyrir sig að breyta núverandi húsnæði þannig að röskun á skólastarfi verði sem allra minnst, það sé afar mikilvægt. Þá sé einnig mikilvægt að endurnýja tækjabúnað á verknámsbrautum. Stóra málið sé að þessar væntanlegu framkvæmdir séu til þess fallnar að bæta aðstöðu bæði nemenda og starfsmanna við skólann. „Þetta er mikill gleðidagur og það er dásamlegt að sjá þetta gerast,“ sagði Sigríður Huld.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, sagði þetta ánægjulegan dag, ekki bara fyrir Eyjafjarðarsvæðið heldur landið allt. Þessi samningur væri hluti af átaki stjórnvalda til þess að bæta aðstöðu í framhaldsskólum með iðn- og starfsnám með það að markmiði að geta tekið við fleiri nemendum á þessar námsbrautir. Ásmundur Einar sagði að samningurinn væri staðfesting á því að búið væri að ganga frá fjármögnun byggingarinnar og skiptingu hennar milli ríkisins og sveitarfélaga á svæðinu. Næsta skref sé að samingurinn fari til fjármálaráðuneytisins og þaðan áfram til Framkvæmdasýslunnar sem hafi yfirumsjón með hönnun byggingarinnar og í framhaldinu útboði á framkvæmdum. Taldi ráðherra að engin hindrun væri í vegi þess að mál gengu hratt og vel fyrir sig og því vænti hann þess að unnt yrði að taka fyrstu skóflustunguna að viðbyggingunni snemma á næsta ári. Ráðherra sagði gríðarlega mikilvægt að hlúa vel að iðn- og starfsnáminu enda værum við Íslendingar eftirbátar t.d. hinna Norðurlandaþjóðanna í þessum efnum. Hér á landi færu um 30% nemenda úr 10. bekk í iðn- og starfsnám en að jafnaði 45% á hinum Norðurlöndunum. Á sama tíma væri gríðarlegur skortur á iðnmenntuðu fólki á Íslandi. Þess vegna væri það stefna stjórnvalda að styrkja þetta nám, m.a. með því að bæta aðstöðuna í verknámsskólunum, þar á meðal VMA. Í þessum áfanga liggi fyrir að aðstaðan verði einnig bætt við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki, Menntaskólann á Ísafirði og Fjölbrautaskóla Suðurnesja í Reykjanesbæ.

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri tók til máls fyrir hönd sveitarfélaganna sjö sem aðild eiga að samningnum. Hún sagði þetta mikinn gleðidag og hún hlakkaði mikið til þess að sjá verkefnið fara af stað og að það gangi hratt og örugglega fyrir sig. Verkmenntaskólinn væri þessu svæði gríðarlega mikilvægur og hróður hans hafi borist víða, skólinn væri þekktur sem góð menntastofnun. Með þessum nýja byggingarkafla muni hann halda áfram að eflast og það sé afar ánægjulegt og mikilvægt.

Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins sagði öll skref sem stigin væru í þá átt að efla verknám á Íslandi vera afar mikilvæg enda störfuðu um 50 þúsund manns í iðnaði í landinu og mikill og viðvarandi skortur væri á starfsfólki í þessum geira atvinnulífsins. Samkvæmt nýlegri könnun skorti fagmenntað starfsfólk hjá um helmingi aðildarfyrirtækja Samtaka iðnaðarins. Þetta sé staðan á sama tíma og þurfi að vísa frá árlega á milli 600 og 1000 umsóknum fólks í iðn- og starfsnám vegna þess að skólarnir hafi ekki möguleika á að taka við þeim. Þörfin sé svo sannarlega til staðar og því sé skref eins og stigið var í dag með aukna og bætta aðstöðu til verknáms í VMA mikið ánægjuefni.

Verkmenntaskólinn á Akureyri var formlega settur á stofn 1. júní 1984 og hófst kennsla í fyrstu skólahúsunum, sem hýstu málmiðnbrautina, haustið 1984, fyrir 40 árum. Byggingarsaga skólans spannar því meira en fjóra áratugi. Síðasti byggingaráfanginn sem var tekinn í notkun voru tvær húsaeiningar D-álmu í suðvesturhorni skólabyggingarinnar, eins og hér má sjá. Kennsla hófst í þessari byggingu haustið 2010, fyrir fjórtán árum.