Fara í efni

Sálfræðingurinn í úrslitum Jólalagakeppni Rásar 2

Hjalti og Lára. Mynd: Kristín Pétursdóttir.
Hjalti og Lára. Mynd: Kristín Pétursdóttir.

Starfsmönnum VMA er margt til lista lagt, eins og margoft hefur sýnt sig. Enn einu sinni kom þetta í ljós í gær þegar upplýst var hvaða tíu lög hefðu komist í úrslit Jólalagakeppni Rásar 2. Sálfræðingurinn og tónlistarmaðurinn Hjalti Jónsson á þar eitt af tíu lögum í úrslitum sem hann samdi ásamt konu sinni Láru Sóleyju Jóhannsdóttur. Lagið heitir Þú og ég og textann gerði engin önnur en séra Hildur Eir Bolladóttir, prestur í Akureyrarkirkju og formaður Hollvinasamtaka VMA.

„Ég var bara að heyra af þessu rétt í þessu. Þetta kom mér skemmtilega á óvart,“ sagði Hjalti í gær. Hann sagðist hafa samið lagið fyrir hálfu ári eða svo og var alls ekki með þessa keppni í huga. Lára bætti aðeins við lagið og þau ákváðu síðan að senda lagið í Jólalagakeppni Rásar 2. Þau fengu Hildi Eir til þess að gera jólalegan texta við lagið. Hjalti og Lára spila á bróðurpart hljóðfæra og syngja lagið saman. Kristján Edelstein tók lagið upp. 

Hér er texti lagsins, sem Hildur Eir Bolladóttir gerði:

Þú og ég

Nóttin flýr af hólmi
þegar hátíð hlý
berst með blikandi stjörnu 
inn um glugga.

Fagrir draumar blunda hljótt
við koddann minn
vilja sálina verma og hugga.

Þú og ég göngum ævinnar veg, án þess að líta til baka,
þú og ég, ekkert annað sem er, um jólin ég vil með þér vaka.

Í hjarta mínu kviknar bæn um betri heim   
og frelsið sem aldrei má sofna.
Í augum þínum lifir allt sem þrái ég
þegar ljósin á himninum dofna.

Þú og ég göngum ævinnar veg, án þess að líta til baka,
þú og ég, ekkert annað sem er, um jólin ég vil með þér vaka.

Á næturhimni stjarna skín
sem segir mér
að ljósið sé
kærleikans eldur.

Þú og ég 
við göngum saman  
lífsins veg
hönd í hönd
það er ástin sem veldur.

 

Auglýst var eftir lögum í Jólalagakeppni Rásar 2 í síðasta mánuði og bárust alls tæplega 80 lög í keppnina. Dómnefnd valdi tíu þeirra sem keppa til úrslita og eru hér aðgengileg á vef RÚV.  Þar getur fólk kosið það jólalag sem því hugnast best af þessum tíu lögum.

Í gær, miðvikudag, var byrjað að spila lögin og munu þau hljóma á Rás 2 til 18. desember. Daginn eftir, föstudaginn 19. desember, verður tilkynnt í þættinum Popplandi hvaða lag sigrar og verður útnefnt Jólalag Rásar 2 árið 2014.

Í verðlaun fyrir sigurlagið í Jólalagakeppni Rásar 2 er 100.000 króna gjafabréf frá Tónastöðinni, 100.000 króna gjafabréf frá Svefni og heilsu og átta rétta veisla fyrir sex manns á Sjávargrillinu.