Fara í efni

Sagnfræðingurinn skipti um gír

Rúnar Már Þráinsson.
Rúnar Már Þráinsson.

Rúnar Már Þráinsson, 28 ára gamall sagnfræðingur, fetar nú alveg nýja slóð. Hann hóf nám í grunndeild bygginga- og mannvirkjagreina í VMA sl. haust og stefnir að því að ljúka þar námi í húsgagnasmíði. Hann segist lengi hafa haft ánægju af handverki og hafi því ákveðið að láta slag standa og drífa sig í þetta nám.

Rúnar Már er Akureyringur. Hann lauk stúdentspróf frá MA árið 2008 og fór síðan beint í sagnfræðinám í Háskóla Íslands, ekki síst með það í huga að kenna sagnfræði í framhaldsskóla í framtíðinni. Að BA-prófinu loknu kom hann aftur norður og tók nám til kennsluréttinda í Háskólanum á Akureyri og lauk því í fyrra. Síðastliðinn vetur var hann síðan í afleysingastöðu sem umsjónarkennari í Glerárskóla á Akureyri.

„Ég hef haft áhuga á því að kenna sagnfræði við framhaldsskóla en slíkar stöður liggja ekki á lausu hér á Akureyri. Það hefur lengi blundað í mér að læra húsgagnasmíði, ég hef haft áhuga á öllu handverki. Ég ákvað svo í sumar að hella mér í þetta og hef ánægju af þessu. Það er alltaf gaman að læra eitthvað nýtt. Eftir sem áður getur vel verið að ég komi til með að kenna síðar en það verður mér alltaf afar gagnlegt að hafa lært þetta,“ segir Rúnar Már og er ánægður með námið það sem af er. Auk námsins starfar hann í hlutastarfi hjá Trésmiðjunni Ölri ehf. á Akureyri, sem fyrst og fremst vinnur að smíði innréttinga, hurða o.fl. Rúnar Már segir að sú vinna nýtist sér að sjálfsögðu mjög vel í náminu.