Fara í efni

Safna undirskriftum fyrir samviskufanga

Adam Snær, Guðmundur Hagalín og Ásdís Birta.
Adam Snær, Guðmundur Hagalín og Ásdís Birta.

Á lokaspretti haustannar beina nemendur Valgerðar Daggar Jónsdóttur og Þorsteins Kruger í félagsfræðiáfanganum Mannréttindi og lýðræði sjónum að alþjóðlegu starfi Amnesty International og kröftugri baráttu samtakanna fyrir mannréttindum fólks. Verkefnin eru óþrjótandi, eins og dæmin sanna, því í mörgum löndum eru mannréttindi vægast sagt fótum troðin.

Á heimasíðu Amnesty International á Íslandi er safnað undirskriftum Íslendinga sem láta sig mannréttindi varða og krefjast þess að tilteknir einstaklingar, sem lýst er á heimasíðunni, verði látnir lausir úr fangelsi í sínum heimalöndum. Núna er sjónum sérstaklega beint að fólki sem situr í fangelsi í Gvatemala, Kína, Palestínu, Egyptalandi, Nígeríu, Úkraínu, Erítreu, Mexíkó, Tailandi og Hvíta-Rússlandi.

Sem hvatning til þess að fá sem flestar undirskriftir Íslendinga, sem síðan verða sendar til stjórnvalda í framangreindum löndum, hefur verið sett upp skólakeppni á heimasíðu Amnesty. Þeir sem skrifa undir geta þar hakað við sinn skóla.

Nemendur í Mannréttindi og lýðræði ganga í skólastofur í VMA eftir helgi og kynna þetta átak Amnesty um leið og þeir hvetja samnemendur sína í VMA til þess að skrifa undir áskorun um að láta þessa samviskufanga lausa úr fangelsi.

Í hópi nemendanna í þessum félagsfræðiáfanga eru Ásdís Birta Ófeigsdóttir, Guðmundur Hagalín Ólafsson og Adam Snær Kristjánsson. Þau vilja hvetja samnemendur sína í VMA til þess að beina sjónum að þessu málefni og skrifa undir áskorun á heimasíðu Amnesty. Í því felist engin skuldbinding en því fleiri undirskriftir, því meiri þrýstingur á stjórnvöld í framangreindum löndum.

Um leið og nemendur VMA skrifa undir áskorunina geta þeir um leið tekið þátt í keppni milli skólanna á Íslandi um fjölda undirskrifta. Hægt er sem sagt að haka í box um skólakeppni og velja Verkmenntaskólann á Akureyri.

Nemendahópnum í Mannréttindi og lýðræði er skipt í fjóra hópa og hefur hver sitt hlutverk. Tveir hópanna munu, eins og að framan greinir, ganga í stofur í skólanum eftir helgi og kynna þetta átak. Einnig er ætlunin að halda bingó til ágóða fyrir Amnesty o.fl.