Fara í efni

Rífandi gangur í miðasölu á árshátíðina!

Eyþór Ingi mun koma fram á árshátíðinni.
Eyþór Ingi mun koma fram á árshátíðinni.
Miðasala á árshátíð VMA, sem verður í íþróttahúsi Síðuskóla nk. föstudagskvöld, hófst sl. fimmtudag og hefur gengið vonum framar, að sögn Kristjáns Blæs Sigurðssonar, formanns Þórdunu. Kristján Blær segir miðana renna út og því sé mikilvægt að tryggja sér miða sem fyrst. Miðasalan verður í dag í VMA kl. 9:30 til 15:00 fyrir utan nemendaráðsskrifstofuna.
Verð aðgöngumiða í mat og á dansleik er kr. 4.900 en á ballið að loknum matnum kostar miðinn kr. 2.500. Á matseðli kvöldsins verður í aðalrétt heilsteikt lambalæri með rjómasósu, fersku salati, kartöflugratíni, gænum baunum og rauðkáli. Í eftirrétt verður súkkulaðikaka með rjómatoppi.
Eins og komið hefur fram munu Auddi og Steindi Jr. veislustýra hátíðinni. Meðan á borðhaldinu stendur mun Eyþór Ingi Gunnlaugsson koma fólki í réttan gír og stýra fjöldasöng. Síðan stíga á stokk ekki ómerkari skemmtikraftar en Emmsjá Gauti, Ká-Aká, GKR og Bent og Blezroca og að lokum setur Páll Óskar, hinn eini og sanni, punktinn yfir i-ið og kemur fólki í rétta dansgírinn! Til stóð að Úlfur Úlfur kæmi fram á árshátíðinni en af því gat ekki orðið.