Fara í efni

Reistu veggi smáhýsis

Í gær voru veggir smáhýsisins reistir við VMA.
Í gær voru veggir smáhýsisins reistir við VMA.

Frá upphafi haustannar hefur aðalverkefni nemenda á þriðju önn í húsasmíði verið að byggja tvö smáhýsi – hvort þeirra er 15 fermetrar að stærð. Húsin, sem byggingadeild byggir í samstarfi við Byko, eru á margan hátt ólík þó stærð þeirra sé sú sama. Byko hannaði annað þeirra og er það með risþaki en hitt húsið, sem er með hallandi þaki, teiknaði Steinmar H. Rögnvaldsson. Það hús reistu nemendur ásamt kennurum sínum, Helga Val Harðarsyni og Jóhanni Þorsteinssyni, í gær.

Undirstöður hússins höfðu verið settar saman utanhúss en veggirnir voru smíðaðir inni. Í gær var síðan komið að því að færa veggina út og koma þeim á sinn stað.

Hitt smáhýsið var sem fyrr segir byggt inni og er það komið vel á veg. Ljúka þarf klæðningu hússins að utan og ganga frá þakinu, setja í það glugga og ljúka frágangi að innan. Það sama á við um húsið sem var reist í gær. Það verður líka klætt að utan sem innan en í stað þakjárns verður bræddur pappi á hallandi þakið. Jóhann Þorsteinsson kennari segir að hönnun húsanna sé um margt ólík sem sé mjög gott því þá fái nemendur sem fjölbreyttasta reynslu við byggingu þeirra.

Verkefni vorannarinnar verða því ærin hjá nemendum á þriðju önn. Þeir halda áfram með smáhýsin og ljúka við frágang þeirra og einnig halda þeir áfram með byggingu stóra hússins sem nemendur á þriðju önn á síðasta skólaári náðu ekki að ljúka við vegna covid faraldursins sl. vor. Það verður því í mörg horn að líta og nemendur ættu að verða reynslunni ríkari eftir þennan um margt sérstaka vetur. Ómögulegt er að segja á þessu stigi hvort og þá hvernig veirufaraldurinn setur strik í reikninginn á vorönn. Við vonum það besta.

Jóhann Þorsteinsson segir að upphald hafi verið í síðustu viku á vinnu nemenda við smáhýsin. Sú vika var nýtt í verkleg verkefni og próf – þar sem litlir nemendahópar voru í húsi í einu, en sem kunnugt er þarf allt skólastarf nú um stundir að taka mið af því að ekki fleiri en tíu mega vera í rými, ef tryggja skal tveggja metra fjarlægðarreglu, eins og gildandi reglur kveða á um.