Fara í efni

Rausnarlegur stuðningur þriggja fyrirtækja

Fulltrúar fyrirtækjanna og VMA.  Mynd: SH/MBL
Fulltrúar fyrirtækjanna og VMA. Mynd: SH/MBL
Um leið og sjávarútvegsfyrirtækið Samherji á Akureyri tilkynnti í hófi í KA-heimilinu á Akureyri í gær um höfðinglegan stuðning við íþróttahreyfinguna í Eyjafirði, einkum barna- og unglingastarf, og fleiri verkefni, var tilkynnt að Samherji, Slippurinn og Kælismiðjan Frost hefðu tekið höndum saman um 20 milljóna króna styrk við málm- og véltæknigreinar VMA. Hjalti Jón Sveinsson segist vera þessum fyrirtækjum afar þakklátur fyrir þennan rausnarlega stuðning og hann undirstriki mikilvægi náins samstarfs og gagnkvæms skilnings atvinnulífs og skóla.

Um leið og sjávarútvegsfyrirtækið Samherji á Akureyri tilkynnti í hófi í KA-heimilinu á Akureyri í gær um höfðinglegan stuðning við íþróttahreyfinguna í Eyjafirði, einkum barna- og unglingastarf, og fleiri verkefni, var tilkynnt að Samherji, Slippurinn og Kælismiðjan Frost hefðu tekið höndum saman um 20 milljóna króna styrk við málm- og véltæknigreinar VMA. Hjalti Jón Sveinsson segist vera þessum fyrirtækjum afar þakklátur fyrir þennan rausnarlega stuðning og hann undirstriki mikilvægi náins samstarfs og gagnkvæms skilnings atvinnulífs og skóla.

„Það var sannarlega frábær stund í KA-heimilinu í gær þegar VMA hlaut þennan 20 milljóna króna styrk frá Samherja, Kælismiðjunni Frosti og Slippnum á Akureyri,“ segir Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari VMA.
„Styrkurinn er ætlaður til kaupa á tækjum og búnaði fyrir málm- og véltæknigreinar skólans.  Styrknum verður vel varið og mun hann lyfta grettistaki í þessum greinum eftir áralangan niðurskurð á rekstrarframlögum til skólans. Þessi styrkur er mikil viðurkenning fyrir skólann og hann undirstrikar mikilvægi náins samstarfs og gagnkvæms skilnings atvinnulífs og skóla. Um leið minnir þetta okkur á mikilvægi og skyldur VMA gagnvart nærsamfélagi sínu,“ segir Hjalti Jón.

„Góð og öflug verk- og tæknimenntun er hverju samfélagi mikilvæg og sennilega aldrei eins og í dag. Skólinn hefur frá upphafi útskrifað málmiðnaðarmenn og vélstjóra. Margir þessara manna hafa stundað starfsnám sitt hjá Kælismiðjunni Frost, Samherja eða Slippnum. Sumir hafa ílengst hjá þessum fyrirtækjum en aðrir haldið annað að námi loknu eins og gengur. VMA hefur þannig verið okkur ómetanleg uppspretta vel menntaðs fólks sem sinnir eftirsóknarverðum og vel launuðum störfum, sem skila miklu til samfélagsins. Samherji varð 30 ára á árinu, Kælismiðjan Frost verður 20 ára nú um áramótin og á síðasta ári voru liðin 60 ár frá stofnun Slippstöðvarinnar, sem er fyrirrennari Slippsins.  Í tilefni af þessum tímamótum viljum við gjarnan leggja okkar af mörkum til að efla verknám við Verkmenntaskólann á Akureyri. Þetta viljum við gera með því að styrkja málm- og véltæknisvið skólans til kaupa á kennslutækjum,“ sagði Gunnar Larsen, framkvæmdastjóri Kælismiðjunnar Frosts, í samtali við Morgunblaðið.

Á meðfylgjandi mynd sem Skapti Hallgrímsson, fréttamaður Morgunblaðsins á Akureyri, tók í KA-heimilinu eru frá vinstri: Gunnar Larsen, framkvæmdastjóri Kælismiðjunnar Frosts, Anton Benjamínsson, framkvæmdastjóri Slippsins, Ágúst Torfi Hauksson, formaður skólanefndar VMA, Hjalti Jón Sveinsson skólameistari, Baldvin B. Ringsted, kennslustjóri tæknisviðs VMA, og Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja.