Rán Flygenring á ritlistakvöldi
Rán Flygenring rithöfundur og teiknari verður gestur á ritlistakvöldi Ungskálda á Kaffi Lyst í Lystigarðinum á Akureyri í kvöld, miðvikudagskvöldið 1. október kl. 20-22. Ritlistakvöldið er ætlað ungu fólki á aldrinum 16-25 ára sem hefur áhuga á skapandi skrifum og er þátttaka því að kostnaðarlausu. Hér er hægt að skrá sig á ritlistakvöldið.
Rán Flygenring er sjálfstætt starfandi mynd- og rithöfundur, listamaður og hönnuður. Bækur hennar hafa komið út í nokkrum löndum og hlotið verðlaun fyrir óhefðbundinn og líflegan myndskreytingarstíl. Hún hefur m.a. hlotið Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs, Íslensku bókmenntaverðlaunin, þýsku og þýsk-frönsku ungmennabókmenntaverðlaunin, auk Jahres-Luchs verðlaunanna. Þá hefur hún verið tilnefnd til Serafina-myndskreytingarverðlauna, þýsku barna- og unglingabókmenntaakademíunnar og ALMA verðlaunanna (Astrid Lindgren minningarverðlaunin).
Ritlistakvöldið er kjörið tækifæri til þess að hitta ungt fólk sem hefur áhuga á skapandi skrifum, njóta skemmtilegrar kvöldstundar með Rán og bera saman bækur.
Sem fyrr segir er ritlistakvöldið í Lystigarðinum á vegum verkefnisins Ungskálda sem hefur fyrir löngu skapað sér fastan sess í menningarstarfinu á Norðurlandi. Hápunktur starfs Ungskálda er ritlistakeppni fyrir ungt fólk á aldrinum 16-25 ára og er opnað í dag, 1. október, fyrir innsendingu hugverka en síðasti skilafrestur er 30. október. Tilkynnt verður 15. nóvember um niðurstöður ritlistakeppninnar og hljóta þeir sem skipa þrjú efstu sætin peningaverðlaun. Varðandi ritverkin í keppninni eru engar hömlur settar á texta, hvorki varðandi efnistök né lengd. Textar þurfa þó að vera á íslensku og vera frumsamið hugverk. Til þess að taka þátt í keppnina er ritverki skilað inn á rafrænu eyðublaði á heimasíðu Ungskálda.
Í nefnd Ungskálda eru fulltrúar frá Atvinnu-, markaðs- og menningarteymi Akureyrarbæjar, Verkmenntaskólanum á Akureyri, Menntaskólanum á Akureyri, Ungmennahúsinu í Rósenborg og Amtbókasafninu.
Á síðasta ári hlaut Sólveig Lára Skarphéðinsdóttir fyrstu verðlaun í ritlistakeppninni fyrir verk sitt Stök
.