Fara í efni

Ragnheiður Skúladóttir flytur fyrirlestur um sviðslistir

Ragnheiður Skúladóttir.
Ragnheiður Skúladóttir.
Í dag, föstudaginn 25. janúar kl. 14.30, flytur Ragnheiður Skúladóttir, leikhússtjóri LA, fyrirlestur í Ketilhúsinu á Akureyri um hugtakið "sviðslistir". Fyrirlesturinn, sem Ragnheiður nefnir “Hvað eru sviðslistir?”, er fyrsti fyrirlesturinn af fjórum sem listnámsbraut VMA og Sjónlistamiðstöðin standa í sameiningu að núna á vorönn. Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir.

Í dag, föstudaginn 25. janúar kl. 14.30, flytur Ragnheiður Skúladóttir, leikhússtjóri LA, fyrirlestur í Ketilhúsinu á Akureyri um hugtakið "sviðslistir". Fyrirlesturinn, sem Ragnheiður nefnir “Hvað eru sviðslistir?”, er fyrsti fyrirlesturinn af fjórum sem listnámsbraut VMA og Sjónlistamiðstöðin standa í sameiningu að núna á vorönn. Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir.

Ragnheiður Skúladóttir útskrifaðist með M.F.A gráðu í leiklist frá University of Minneapolis, Minnesota árið 1996.  Hún starfaði sem leikkona og kennari í New York til ársins 2000 þegar hún var ráðin sem fyrsti deildarforseti Listaháskóla Íslands og gegndi því starfi til vors 2011. Árið 2008 stofnaði hún alþjóðlegu leiklistarhátíðina LÓKAL ásamt Bjarna Jónssyni og Guðrúnu Jóhönnu Guðmundsdóttur. Ragnheiður er nú leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar og hefur áratuga reynslu af kennslu, stjórnun, framleiðslu og leikstjórn innlendis sem erlendis.

Þessi árlega fyrirlestraröð á sér ríka hefð, enda var henni ýtt úr vör fyrir ellefu árum að frumkvæði Guðmundar Ármanns, myndlistarmanns og kennara við listnámsbraut VMA og Þrastar Ásmundssonar, sögu- og heimspekikennara við skólann. Fyrirlestraröðin er hluti af námi nemenda í svokölluðum “Listir-menning”-áföngum listnámsbrautar, en þessa áfanga sitja um 70 nemendur á þessari önn.

Guðmundur Ármann segir að á sínum tíma hafi hann og Þröstur kennt saman umrædda menningar- og listaáfanga og þeir hafi smám saman komist að raun um að þeir hefðu ekki til að bera þá þekkingu sem þyrfti til þess að spanna allt það víða svið sem viðfangsefnið kallaði á. Til þess að fylla upp í þessi “göt” hafi verið farin sú leið að fá utanaðkomandi fyrirlesara til þess að tala um sín viðfangsefni.

“Það er virkilega gaman að líta um öxl og sjá að þessi hugmynd okkar á sínum tíma hafi í öll þessi ár haldið velli og til okkar hafa komið fjölmargir góðir fyrirlesarar.  Þetta hefur hjálpað okkur í kennslunni og ekki síður opnað nýjar dyr og víkkað sýn nemendanna,” segir Guðmundur Ármann og bætir við að ástæða sé til að þakka sérstaklega stjórnendum VMA fyrir þann skilning sem þeir hafi sýnt á mikilvægi þess að hafa þessa fyrirlestra sem hluta af námi nemendanna á listnámsbraut.

Arna Valsdóttir, kennslustjóri listnámsbrautar VMA, er sammála því að fyrirlestrarnir  séu afar mikilvægir fyrir nemendur. “Þessir fyrirlestrar eru til þess fallnir að veita nemendum ný sjónarhorn og það er einmitt eitt af því sem listnám felur í sér, að fá nýja sýn á hlutina úr ólíkum áttum,” segir Arna og bætir við að vel fari á því að Ragnheiður fjalli í fyrirlestrinum í Ketilhúsinu um sviðlistir, því nú sé unnið að því að koma á fót sviðslistakjörsviði á listnámsbraut VMA.

Sem fyrr segir er um að ræða fyrirlestraröð og verður sá fyrsti í dag. Næsti fyrirlestur verður 22. febrúar og þá verður fyrirlesari Egill Ingibergsson, ljósameistari og kennari við Listaháskólann, en hann hefur átt ríkan þátt í mörgum athyglisverðum leiksýningum, m.a. Leigumorðingjanum, sem LA sýndi á síðasta ári, þann 1. mars verður Ásdís Arnardóttir, sellóleikari og kennari við Tónlistarskólann á Akureyri með fyrirlestur og Finnur Arnar, myndlistarmaður, verður síðan með síðasta fyrirlestur vorannar í apríl.