Fara í efni

Ragnar í Smára og listin

Elísabet Gunnarsdóttir.
Elísabet Gunnarsdóttir.

Í dag, þriðjudaginn 27. febrúar, kl. 17-17.40 heldur Elísabet Gunnarsdóttir, safnstjóri Listasafns ASÍ, fyrirlestur í Ketilhúsinu undir yfirskriftinni Hvað var maðurinn að hugsa?! 

Í fyrirlestrinum fjallar Elísabet um Listasafn ASÍ og hvaða aðferðum þar er beitt til að miðla listinni til almennings um allt land. Skoðaðar verða hugmyndir hugsjónamannsins Ragnars Jónssonar í Smára sem færði ASÍ listaverkasafn sitt að gjöf 1961 og lagði þar með grunninn að safninu. Ósk Ragnars var sú að stofnað yrði Listasafn alþýðunnar sem kæmi listinni á framfæri við vinnandi fólk í landinu.

Elísabet Gunnarsdóttir lagði stund á nám í arkitektúr í Skotlandi og Frakklandi. Hún rak teiknistofuna Kol&salt til margra ára og var jafnframt virkur þátttakandi í rekstri Gallerís Slunkaríkis á Ísafirði. Hún stýrði listastofnun á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar í Noregi og vann síðar að því að setja á fót og þróa nýja listastofnun á Fogo Island á austurströnd Kanada fyrir Shorefast Foundation. Undanfarin ár hefur Elísabet unnið að ýmsum menningarverkefnum með aðsetur á Ísafirði og setti m.a. á laggirnar alþjóðlegar gestavinnustofur, Arts Iceland, í samstarfi við Gallerí Úthverfu/Outvert Art Space á Ísafirði ásamt Gunnari Jónssyni, myndlistarmanni. Elísabet hefur verið safnstjóri Listasafns ASÍ frá nóvember 2016. 

Fyrirlestur Elísabetar er í fyrirlestraröðinni Þriðjudagsfyrirlestrar í Ketilhúsinu sem er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Gilfélagsins, VMA, Myndlistafélagsins og Háskólans á Akureyri.

Aðgangur er ókeypis.