Fara í efni

Rafvirkjanemar kynntu lokaverkefni sín

Hér kynnir Andri Björn Sveinsson blöndunartankinn.
Hér kynnir Andri Björn Sveinsson blöndunartankinn.

Nú er uppskerutími í VMA. Kennslan er á lokasprettinum, síðasti kennsludagur er nk. fimmtudagur. Síðan taka prófin við. Í gær kynntu verðandi rafvirkjar lokaverkefni sín, sjö nemendur sem setja punktinn yfir i-ið í námi sínu núna fyrir jólin.

Sófus Ólafsson og Helgi Már Hafþórsson
Verkefni þeirra bar nafnið Kálfafóstra og er einskonar brynningartæki fyrir smákálfa. Tækið hafa þeir félagarnir útfært og tengt við níu hundruð lítra mjólkurtank. Í tanknum verður blönduð mjólk úr mjólkurdufti. Sófus er frá Höskuldsstöðum í Austur-Húnavatnssýslu og þar er ætlunin að nota „Kálfafóstruna“. Ekki ósvipaðar vélar eru til á markaðnum en á margan hátt gefur þessi útfærsla þeirra félaga meiri tæknilega möguleika. Gert er ráð fyrir að ca. 10 daga gamlir kálfar fá mjólk í gegnum slíkt kerfi. Gert er ráð fyrir að þeir hafi óheftan aðgang að mjólkinni en sýra sem sett er út í hana gerir það að verkum að kálfarnir drekka ekki mjólkina sér til óbóta.

Kristján Logi Halldórsson og Baldvin Ingvason
Verkefni þeirra fólst í því að kanna möguleika á að nýta sólarsellur til rafmagnsframleiðslu fyrir sumarbústaði á svæðum þar sem ekki er rafmagn. Athugun þeirra leiddi í ljós að sólarsellurnar hafi marga kosti, þær séu umhverfisvænar, ekki þurfi að leggja heimtaugar með tilheyrandi jarðraski og unnt sé að setja sólarsellur upp hvar sem er. Sólarsellurnar sem þeir könnuðu í þessu sambandi eru af gerðinni Victron Energy Smart Solar. Kostnaður við sólarsellur fyrir meðalstærð af sumarbústað telja þeir að sé um 750 þúsund krónur og efniskostnaður við raflagnir sé nálægt 100 þúsund krónum. Þeir segja að sólarsellurnar séu góður kostur og þær séu alltaf að verða betri og betri. Hins vegar sé ekki hægt að mæla því mót að hin skamma dagsbirta á þessum tíma árs sé ákveðinn hemill á rafmagnsframleiðslu og geri það að verkum að hún verði aldrei jöfn allt árið.

Pétur Gunnarsson og Róbert Andri Steingrímsson
Í samvinnu við fyrirtækið Eltek hönnuðu þeir og smíðuðu nýja aðaltöflu í Lundarskóla á Akureyri. Gamla aðaltaflan er barn síns tíma og tími til kominn á endurnýjun. Sögðu þeir félagar að verkefnið hafi verið þeim báðum afar lærdómsríkt og mikilvægt að fá slíkt raunhæft verkefni. Hin nýja aðaltafla skólans verður að óbreyttu sett upp innan tíðar.

Andri Björn Sveinsson
Hannaði og smíðaði blöndunartank - hermilíkan fyrir stýringavirkni og er tilgangur með verkefninu að nemendur í VMA geti hermt blöndunarvirkni í skólanum. Slíka blöndunartanka á stærri skala er að finna í m.a. matvæla- og lyfjaiðnaði.