Fara í efni

Prufur í dag fyrir Bjart með köflum

Bjart með köflum er eftir Ólaf Hauk Símonarson.
Bjart með köflum er eftir Ólaf Hauk Símonarson.

Í dag, miðvikudag, kl. 17 er áhugasömum nemendum í VMA boðið að mæta í prufu á þriðju hæð í Rósenborg ef þeir hafa áhuga að taka þátt í uppfærslu Yggdrasils – leikfélags VMA eftir áramót á söngeiknum „Bjart með köflum“ eftir Ólaf Hauk Símonarson. Vert er að ítreka að allir nemendur í skólanum eru gjaldgengir – bæði þeir sem hafa sótt leiklistarnámskeið í skólanum núna á haustönn og aðrir.

Á síðasta skólaári setti leikfélag VMA upp leikritið 101 Reykjavík eftir Hallgrím Helgason í leikstjórn Jóns Gunnars Þórðarsonar og hlaut sú uppsetning góða dóma.

Pétur Guðjónsson, viðburðastjóri VMA, mun leikstýra uppfærslunni á „Bjart með köflum“ en hann hefur undanfarin ár látið til sín taka í leikritaskrifum, leikstjórn og gerð stuttmynda. Pétur sat leikstjórnarnámskeið sl. sumar hjá Bandalagi íslenskra leikfélaga og í framhaldi af því hefur hann stýrt leiklistarnámskeiði í VMA núna á haustönn, þar sem hafa verið um 40 þátttakendur. Pétur býst við að á bilinu 30-40 manns komi að sýningunni með einum eða öðrum hætti og segir hann ánægjulegt við slíka vinnu að unnt sé að virkja margar mismunandi námsbrautir í skólanum til vinnu. Þeir sem ekki verða í hlutverkum hafa önnur verkefni eins og smíðar, búningagerð, ljósahönnun, tónlistarflutning, förðun og hárgreiðsla o.fl. Miðað er við að hefja æfingar fyrir áramót og fá leikarar heimavinnu með sér í jólafríið því æfingar verða án handrita eftir áramót.  Frumsýning á verkinu er áætluð 27.febrúar nk

En um hvað fjallar þetta verk Ólafs Hauks, sem var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu í apríl 2011?
Því er til að svara að árið 1968 er Jakob, sautján ára piltur úr Reykjavík, sendur í sveit að bænum Gili þar sem nútíminn virðist enn ekki hafa haldið innreið sína, og fjölskyldan stritar við að yrkja landið og sækja sjóinn líkt og forfeðurnir hafa gert um aldir. Fjölskyldan sem Jakob býr og vinnur hjá um sumarið er til dæmis ekki með rafmagn. Sonur hjónanna á bænum er upptekinn við uppfinningar öllum stundum og reynir meðal annars að fljúga eins og fugl. Amman á bænum sefur í líkkistu og er tilbúin að fara yfir móðuna miklu. Dóttirin á bænum, Gunnvör, á bát og fer ein á sjó til veiða og bölvar í öðru hverju orði þegar hún er í landi. Hún er á svipuðum aldri og Jakob, enda þarf hann að velja á milli hennar og Ausu á næsta bæ sem báðar eltast við hann. Jakob er rokkari og hefur ætlað sér að lifa vistina af með því að spila á rafmagnsgítarinn sinn, en nú vandast málið því ekkert er rafmagnið. Innan skamms virðist Jakob vera orðinn miðpunkturinn í ævagömlum fjandskap á milli bæja í sveitinni. Ástin ólgar, heiftin kraumar og rokklögin hljóma af blússandi krafti.
Leikritið gerist á tímum efnahagserfiðleika þegar fólk flýr land í leit að nýjum tækifærum og þeir sem eftir verða spyrja sig að því hvers vegna þeir vilji búa hér?
Mikil tónlist er í verkinu, meira og minna lög sem voru vinsæl á hippatímabilinu. Svo skemmtilega vill til að þessari tónlist er unga kynslóðin í dag farin að gefa gaum á nýjan leik, meira en fjörutíu árum eftir að hún heyrðist fyrst. Og „gamlingjarnir“ hlusta auðvitað líka á þessa sígildu hippatónlist.

Ólaf Hauk Símonarson þarf vart að kynna. Hann er og hefur lengi verið eitt mikilvirkasta og vinsælasta leikskáld Íslendinga,  hann hefur einnig sent frá sér ljóðabækur, smásögur og skáldsögur, skrifað útvarps-, sjónvarps- og kvikmyndahandrit, gefið út hljómplötur með eigin lögum og söngtextum og þýtt bækur, leikrit og kvikmyndir. Fyrsta leikritið hans, Blómarósir, var sýnt árið 1979. Meðal annarra leikverka Ólafs Hauks eru söngleikurinn Grettir sem hann samdi í félagi við Egil Ólafsson og Þórarin Eldjárn, Ástin sigrar, Kötturinn sem fer sínar eigin leiðir, Hundheppinn, Kjöt, Á köldum klaka, Vitleysingarnir, Boðorðin níu, Fólkið í blokkinni, Bílaverkstæði Badda, Hafið, Gauragangur, söngleikurinn Þrek og tár, Kennarar óskast, Meiri gauragangur, Viktoría og Georg, Græna landið og Halldór í Hollywood.