Fara í efni

Pétur viðburðastjóri með jólaútvarpsstöð

Pétur Guðjónsson í hljóðverinu á heimili sínu.
Pétur Guðjónsson í hljóðverinu á heimili sínu.

Það hefur lengi blundað útvarpsmaður í Pétri Guðjónssyni, viðburðastjóra VMA, enda tók hann sín fyrstu skref í útvarpi á Hljóðbylgjunni árið 1987, aðeins sextán gamall. Þegar menn fá á annað borð útvarpsbakteríuna er ekki svo auðvelt að losna við hana. Pétur hefur aldrei losnað við hana, þó svo að hann hafi tekist á við fjölmargt annað síðustu ár en að sitja við hljóðnemann. Og þegar saman fer áhugi á dagskrárgerð fyrir útvarp og að vera mikið jólabarn getur útkoman aldrei orðið önnur en jólaútvarp. Og það var nákvæmlega það sem Pétur ákvað að ráðast í, að vísu ekki með löngum fyrirvara. Hann ákvað að halda úti jólaútvarpi núna í desember – frá 1. desember og fram á aðfangadag. Útvarpið kallar hann "Jóladagatal Péturs Guðjóns" og því er hægt að ná með því að fara inn á  „læksíðu“ með þessu nafni á fésbókinni. Á hverjum degi fram á aðfangadag setur Pétur inn eitt stykki 40 mínútna jólaþátt sem er blanda af viðtölum, fróðleik og að sjálfsögðu jólatónlist. Alla þættina er hægt að hlusta á með því að fara inn á umrædda síðu á fésbókinni.

Nú til dags er einfalt mál að setja upp slíkt útvarp á alnetinu. Pétur segir að með réttu forriti og góðri tölvu – auk upptökutækis – sé allt hægt. Hljóðver Jóladagatals Péturs er í einu litlu herbergi á heimili útvarpsstjórans í Giljahverfinu á Akureyri. „Ég hafði lengi verið með þá hugmynd að hafa svona útvarp í jólamánuðinum en lét loks verða af því núna. Sannast sagna ýtti konan mín mér af stað. Ég geri þetta eingöngu ánægjunnar vegna, ég hef ekki farið út í að safna styrkjum eða auglýsingum til þess að útvarpa í tengslum við þættina. Ég sé að það eru margir að fylgjast með þessu og margir hafa þakkað mér fyrir þetta framtak. Þakklæti frá hlustendum er mér alveg nóg sem laun fyrir þá vinnu sem að baki býr og vonandi er þetta til þess fallið að vekja athygli á því að það þarf ekki að vera stórmál að fara út í útvarpssendingar. Að mínu mati er þörf á staðbundinni útvarpsstöð á Akureyri. Vissulega er þetta nokkuð tímafrekt áhugamál en ég hef mikla ánægju af þessu. Tæknilega er ekki mikið mál að gera þetta og eftir að hafa unnið lengi við útvarp er ég bærilega vanur að tala í hljóðnema. Ég tek viðtöl af ýmsum toga sem tengjast jólum á einn eða annan hátt og síðan vinn ég ýmislegt annað efni auk jólatónlistarinnar, en ég hef í gegnum tíðina komið mér upp dágóðu safni af jólalögum sem nýtast mér vel í þetta verkefni,“ segir jólabarnið og útvarpsstjórinn Pétur Guðjónsson.