Fara í efni

Páll Óskar, Emmsje Gauti og Úlfur Úlfur á árshátíð VMA 24. febrúar

Páll Óskar á sviðinu í Hofi í gærkvöld.
Páll Óskar á sviðinu í Hofi í gærkvöld.

Óhætt er að segja að öllu verði tjaldað til á árshátíð VMA, sem fram fer í íþróttahúsi Síðuskóla föstudagskvöldið 24. febrúar nk. Sjaldan eða aldrei í sögu árshátíðar VMA hefur jafn mörgum og stórum nöfnum í hérlendum tónlistarbransa verið teflt saman á einu kvöldi.

Á Sturtuhausnum í Hofi í gærkvöld var hulunni svipt af þeim skemmtikröftum sem koma fram á árshátíðinni. Fyrstan skal frægan telja Pál Óskar Hjálmtýsson, sem einmitt steig á stokk í Hofi í gærkvöld og gerði hreinlega allt vitlaust. Gestir stóðu upp úr sætum sínum og dönsuðu sem mest þeir máttu þegar Páll Óskar steig á svið og tók þrjú af þekktum lögum sínum. Gefur sannarlega góð fyrirheit um árshátíðina þann 24. febrúar.

Einnig treður upp á árshátíðinni rapparaþríeykið – annars vegar Emmsje Gauti og hins vegar Úlfur Úlfur. Og til þess að kóróna þessa stórstjörnuskothríð verða Steindi Jr. og Auðunn Blöndal - Auddi Blö - kynnar á árshátíðinni.

Kristján Blær Sigurðsson, formaður Þórdunu, upplýsti í Hofi í gærkvöld að miðinn á árshátíðina - matur, skemmtiatriði og dansleikur - komi til með að kosta 4.900 kr, sem er 2000 kr. lækkun á miðaverði frá fyrra ári. Ef bara er farið á dansleikinn kostar miðinn 2500 kr. Sala aðgöngumiða á árshátíðina hefst 13. febrúar og verður aðgöngumiðasalan rækilega kynnt þegar þar að kemur.

Ef framantöldu er ljóst að ef einhvern tímann er ástæða til þess að mæta á árshátíð nemenda VMA - þá er það núna! Það gæti stefnt í að þakið rifni af íþróttahúsi Síðuskóla föstudagskvöldið 24. febrúar nk.!