Fara í efni

Öflugur í samlokugerðinni

Óskar Atli, Adda Þóra og Konráð Vestmann.
Óskar Atli, Adda Þóra og Konráð Vestmann.

Það er ekki ofsögum sagt að nemendur í VMA búa yfir ýmsum duldum hæfileikum. Óskar Atli Gestsson, sem nú stundar nám í nokkrum bóklegum fögum á sjúkraliðabraut VMA, hefur mikla ánægju af tilraunastarfi í eldhúsinu og hann gerði sér lítið fyrir og sigraði samlokukeppni á Local Food matarhátíðinni í Íþróttahöllinni á Akureyri um liðna helgi.

Óskar Atli, sem er þrítugur að aldri, segist á sínum tíma hafa lært múrverk, án þess að ljúka því námi, og vann við múrverk til nokkurra ára. Meðal annars hafði hann á sinni könnu múrverk eða kannski öllu heldur sprautusteypu á vegum Háfells við gerð Héðinsfjarðarganga. Einni fríhelginni eyddi hann á þeim tíma á Akureyri og á vegi hans varð Adda Þóra Bjarnadóttir, sem síðar varð kona hans. Þau búa nú á Akureyri.

Fyrir um fimm árum lenti Óskar Atli í óhappi sem gerði það að verkum að hann skipti um gír, ef svo má segja. Hann varð að segja skilið við múrverkið og hóf að læra heilsunudd í Nuddskóla Íslands – innan veggja Fjölbrautaskólans við Ármúla. Verklega hlutanum lauk hann á sínum tíma syðra og hefur síðustu ár starfað sem nuddari í Abaco og Aqua Spa á Akureyri auk þess að vera með eigin nuddstofu. En nú er Óskar Atli sem sagt sestur á skólabekk í VMA til þess að taka bókleg fög sem tengjast heilsunuddinu og eru þau hluti af námi á sjúkraliðabraut.  Óskar Atli segist ekki stefna á að ljúka sjúkraliðanáminu, hann sé skráður á þessa braut til þess að taka ýmis bókleg fög sem hann þurfi að hafa í handraðanum – t.d. hjúkrunarfræði og líffæra- og lífeðlisfræði  - í heilsunuddinu. Hins vegar horfi hann til þess að ljúka stúdentsprófi frá VMA – vonandi að rúmu áru liðnu – og vel komi til greina að halda áfram námi eftir það í sjúkraþjálfun.

En aftur að samlokugerðinni á Local Food hátíðinni um sl. helgi. Kona Óskars Atla, Adda Þóra, skráði hann til leiks án þess að hann hefði nokkra hugmynd um það. Hann sagðist því hafa haft afskaplega takmarkaðan tíma til undirbúnings og ekki hafi hann fyllst bjartsýni á gengi sitt í keppninni þegar hann sá að keppinautarnir komu m.a. Fabrikkuninni og Hlöllabátum! En það varð ekki aftur snúið og því þurfti Óskar Atli að leggja höfuðið í bleyti.

„Ég hef alltaf haft gaman af því að dunda í eldhúsinu – sérstaklega finnst mér gaman að gera ýmsar tilraunir. Ég hef meðal annars fengist aðeins við brauðgerð, ostagerð og bjórgerð og ég hugsa að bjórsopinn sem ég laumaði að dómnefndinni hljóti að hafa gert gæfumuninn,“ segir Óskar Atli og hlær.

En þrátt fyrir skamman undirbúning hitti Óskar Atli á réttu samsetninguna og við samlokugerðina í sjálfri keppninni naut hann aðstoðar eiginkonunnar. Vinningssamlokuna kallar Óskar Atli „Rifin Dead Ringer grísaloka“:

Rifin Dead Ringer Grísa-Loka

  • Brauðið er gert úr heimalöguðum Dead Ringer Indian Pale Ale og afgangs korni úr brugginu.
  • Rifinn grís sem var hægeldaður við mjög lágan hita í rúmar 12 klukkustundir, svissaður skallot laukur og BBQ sósa.
  • Kryddaður sýrður rjómi og heilsutómatar, gúrka, heimaræktað fjólublátt grænkál ásamt heimalöguðum mozarellaosti.
  • Skreytingin er grænkálsblað með heilsutómötum ásamt rifnum mozarellaosti og olíu dressingum með chilli, hvítlauk og múskat.
  • Heimabruggaður Dead Ringer IPA bjór sem notaður var í baksturinn til að skola bitanum niður.

Á heimasíðunni veitingageirinn.is má sjá umfjöllun um þessa bráðskemmtilegu  samlokukeppni. Myndirnar sem hér birtast tók Kristinn Frímann Jakobsson matreiðslumeistari og gaf hann góðfúslegt leyfi til þess að nota þær með þessari umfjöllun. Kunnum við honum bestu þakkir fyrir það.

Fyrir vinningssamlokuna fékk Óskar Atli að launum forláta Pyrex Slow Cook pott – eða hægeldunarpott eins og hann myndi vera nefndur á íslensku.  Hann  er að vonum hæstánægður með pottinn og býst við því að töfra fram eitthvað gómsætt fyrir fjölskylduna um komandi helgi með aðstoð hægeldunarpottsins. Hér má sjá þátttakendur í samlokukeppninni með viðurkenningar sínar.