Fara í efni

Öryggisvitund er mikilvægasta hugtakið

Fyrirlesararnir Magnús og Þórhallur frá Haga ehf.
Fyrirlesararnir Magnús og Þórhallur frá Haga ehf.

„Eitt hugtak er öðrum mikilvægara fyrir ykkur að muna, það er öryggisvitund,“ sagði Magnús Halldórsson, sem ásamt Þórhalli Matthíassyni frá fyrirtækinu Haga ehf. heimsótti VMA í liðinni viku og hélt fyrirlestur fyrir nemendur á öðru ári í húsasmíði um fallvarnir.

Magnús Halldórsson hefur langa og fjölþætta reynslu af öryggismálum. Hann lærði á sínum tíma húsasmíði og síðar byggingaiðnfræði í Tækniskólanum gamla. Magnús rak verktakafyrirtæki um tíma og starfaði líka í Bandaríkjunum hjá verktakafyrirtæki, þar sem hann segist hafa kynnst alveg nýrri hlið á öryggismálum og sá tími hafi opnað augu hans fyrir mikilvægi þess að huga vel að öllum öryggismálum starfsmanna á byggingarstað, ekki síst fallvörnum. „Sem dæmi get ég nefnt að hjá þessu bandaríska fyrirtæki var varið 5-10 mínútum í fund á hverjum morgni til þess að fara yfir öryggismálin,“ segir Magnús.
Að Bandaríkjadvölinni lokinni kenndi Magnús í nokkur ár í Iðnskólanum í Reyjavík og síðan starfaði hann í nokkur ár hjá öryggisfyrirtækinu Dynjandi en nú er hann í samstarfi við Haga, sem selur allskyns öryggisvörur, þar með talinn fallvarnabúnað.

Magnús fór vítt og breitt yfir mikilvægi þess að fyrirtæki í t.d. byggingariðnaði hefðu þessa hluti í lagi og hann lagði á það áherslu að ábyrgðin væri fyrirtækjanna og starfsmenn hefðu skýlausan rétt til þess að krefjast þess að enginn afsláttur væri gefin í öryggismálum – hvort sem það ætti við um fallvarnabelti, líflínu eða eitthvað annað. En því miður sagði Magnús að þrátt fyrir að vakning hafi orðið í þessum efnum væri það nú svo að fallslys væru enn hlutfallslega algengust alvarlegra slysa á byggingarstað.

Mikil áhersla er lögð á öryggismálin frá fyrsta degi í náminu í byggingadeild VMA og voru fyrirlestrar Magnúsar og Þórhalls um fallvarnabúnað fyrir tvo hópa nema á öðru ári í húsasmíði gott innlegg í þá umræðu. Góð visa er aldrei of oft kveðin, segir máltækið og það á vel við um notkun viðurkennds öryggisbúnaðar.