Fara í efni

Öryggið í öndvegi

Bragi Óskarsson gefur nemendum góð ráð.
Bragi Óskarsson gefur nemendum góð ráð.

Eitt af grunnstefunum í kennslu í byggingagreinum er öryggismál. Aldrei er nægilega varlega farið enda er eðli starfs húsasmiða þannig, hvort sem er í útivinnu eða inni á verkstæði, að hætturnar eru við hvert fótmál ef fyllsta öryggis er ekki gætt. Á haustönn er kenndur áfanginn Véltrésmíði 1 þar sem nemendum eru kynntar allar algengustu trésmíðavélar sem notaðar eru í byggingariðnaði og farið yfir meðferð þeirra og umhirðu. Mikil áhersla er lögð á öryggismálin og rétta líkamsbeitingu þegar unnið er við flókin tæki og búnað.

Núna á vorönn taka nemendur á fyrsta ári framhaldsáfangann Véltrésmíði 2 þar sem byggt er ofan á þann grunn sem lagður var á haustönn. Nemendur eru þjálfaðir í notkun flóknari vélbúnaðar og þá möguleika sem hann býður upp á. Áfram er lögð mikil áhersla á öryggisþáttinn og nemendur fá þjálfun í notkun algengustu trésmíðavélanna.

Þegar litið var inn í byggingadeildina í VMA var Bragi Óskarsson kennari að kenna nokkrum grunndeildarnemum Véltrésmíði 2 og sýna þeim stillingar vélanna og notkunarmöguleika þeirra. Á önninni fá nemendur m.a. það verkefni að nota vélbúnaðinn á smíðaverkstæði byggingadeildar við smíði húsgagna samkvæmt fyrirliggjandi teikningum.