Fara í efni

Öryggið í öndvegi

Ketill Sigurðsson leiðbeinir nemendum í VTS 103.
Ketill Sigurðsson leiðbeinir nemendum í VTS 103.

Það er aldrei of varlega farið. Þessi alkunnu sannindi eru eins og rauður þráður í gegnum áfangann Véltrésmíði 103 sem nemendur í grunnnámi byggingagreina í VMA taka. Öryggismálin eru einn af stóru þáttunum í áfanganum því afar mikilvægt er að koma í veg fyrir að þeir sem starfa í byggingagreinum verði fyrir slysum.

Nemendur sem taka Véltrésmíði  - VTS 103 hófu grunnnmámið sl. haust. Þorleifur Jóhannsson, kennari í byggingagreinum, segir að í þessum áfanga sé nemendum kennt að nýta sér trésmíðavélar og lofthandverkfæri sem eru notuð í tré- og byggingaiðnað, hvernig þessi tæki séu notuð og viðhald þeirra. Þorleifur segir að í kennslunni sé gríðarlega mikil áhersla lögð á öryggisþáttinn því sannarlega geti þessi tæki, t.d. rafmagnssagir og –heflar, verið varhugaverð sé ekki farið að öllu með gát og öryggisreglum fylgt í hvívetna. Undir þetta tekur Ketill Sigurðsson kennari sem var að leiðbeina nemendum í kennslustund í gær að nota rafmagnssög. Hann segir afar mikilvægt að kenna þennan þátt í náminu vel, nemendur verði að læra strax að umgangast tækin og hafa í huga yfirveguð og vönduð vinnubrögð og öryggi. Einnig sé mikilvægt að kunna rétta líkamsbeitingu við að vinna við vélarnar

Ekki fór á milli mála að nemendur í þessum hópi, sem er um helmingur af fyrsta árs nemum sem hófu nám sl. haust, voru afar áhugasamir og fylgdust vel með. Iðnaðarmenn framtíðarinnar!