Fara í efni

Öryggið á oddinn

Fulltrúar Byko, Haga og VMA í byggingadeild í gær.
Fulltrúar Byko, Haga og VMA í byggingadeild í gær.

Eitt af mikilvægustu boðorðum sem nemendur í byggingadeild VMA tileinka sér í námi sínu er að setja öryggið alltaf á oddinn. Eðli málsins samkvæmt er ótal margt sem þarf að hafa í huga til þess að tryggja öryggi og það á bæði við í náminu í byggingadeildinni í VMA, þar sem unnið er með margar trésmíðavélar, og í öllum byggingagreinum út á vinnumarkaðnum. Öryggismálin hafa fengið æ meira vægi, sem er mjög jákvætt.

Undanfarin ár hafa fyrirtækin Byko og Hagi og þeirra birgjar, Byggiðn – félag byggingamanna og VMA tekið höndum saman um að útvega nemendum í grunnnámi í byggingadeild VMA öryggispakka á mjög góðum kjörum. Í ár er ekki brugðið út af vananum í þessum efnum og nú hafa nemendur fengið slíkan öryggispakka sem samanstendur af öryggisskóm, smíðabuxum, pólóbol, heyrnarhlífum, úlpu, hjálmi og öryggisgleraugum. Þessu góða og farsæla samstarfi var fagnað í samsæti í byggingadeildinni í gær þar sem Byko bauð viðstöddum upp á tertu í tilefni dagsins.

Hver nemandi greiðir um tuttugu þúsund krónur fyrir framangreint og VMA, Byggiðn, Byko og Hagi og birgjar þeirra leggja til það sem upp á vantar.

Hluti nemenda í grunnnámi byggingadeildar var viðstaddur hófið í gær og einnig voru þar þrír af kennurum byggingadeildar, Jóhann Gunnar Jóhannsson, Jóhann Þorsteinsson og Helgi Valur Harðarson, brautarstjóri, Anna María Jónsdóttir, sviðsstjóri verknáms í VMA, Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari VMA, Friðþjófur Ísfeld Sigurðsson, deildarstjóri Byko Akureyri, Ómar Árnason, aðstoðarverslunarstjóri Byko Akureyri, og Þórhallur Matthíasson, sölufulltrúi Haga ehf.

Þórhallur Matthíasson og Ómar Árnason, fyrir hönd Haga og Byko, lýstu mikilli ánægju með að geta lagt náminu í byggingadeildinni lið með þessum hætti. Aldrei væri of mikil áhersla lögð á öryggismálin og því væri það fyrirtækjunum ánægjuefni að styðja námið og nemendur á þennan hátt. Ómar lét þess og getið að nemendur byggingadeildar nytu sérstakra afsláttarkjara á ýmsum vörum hjá Byko, m.a. verkfærum.

Sigríður Huld skólameistari og Helgi Valur brautarstjóri ítrekuðu þakkir skólans fyrir þetta góða og farsæla samstarf sem þau sögðu mjög mikilvægt. Sigríður Huld beindi því til nemenda að þeir væru ætíð meðvitaðir um mikilvægi öryggismála, bæði í námi sínu í VMA og þegar út á vinnumarkaðinn væri komið.