Fara í efni

Æðislegt nám

Kormákur Rögnvaldsson.
Kormákur Rögnvaldsson.

Kormákur Rögnvaldsson er fyrsta árs nemi í hársnyrtiiðn í VMA. Auk námsins hefur hann mörg járn í eldinum, m.a. æfir hann dans og hefur á síðustu vikum farið á kostum í túlkun sinni á Doody í uppfærslu Leikfélags VMA á Grís.

Kormákur er fæddur og uppalinn á Akureyri. Hann gekk í Brekkuskóla en 2018-2019 bjó hann með fjölskyldu sinni í Brighton á Englandi. Þar gekk Kormákur í skóla og rifjar upp að skólagangan ytra hafi í senn verið skemmtilegur og lærdómsríkur tími. „Það var virkilega gaman að búa í eitt ár í Brighton. Við vorum fyrst og fremst að prófa eitthvað nýtt og njóta lífsins,“ segir Kormákur. Skólinn hans í Brighton heitir Portslade Aldridge Community Academy (PACA). „Þetta var töluvert frábrugðið því sem við eigum að venjast hér. Við vorum í skólabúningum – jakkafötum – alla daga. Í Bretlandi eru krakkarnir ellefu ár í grunnskóla og því fór ég úr 8. bekk í Brekkuskóla í 10. bekk í PACA. Eftir að við fluttum aftur heim fór ég aftur í 10. bekk í Brekkuskóla. Ég fór því aldrei í 9. bekk á minni grunnskólagöngu. Í skólanum í Brighton var mikil áhersla á vísindi og mér fannst þau vera komin lengra í stærðfræði en hér. Ég lærði auðvitað mikið í ensku á því að vera í enskum skóla í einn vetur og þegar ég kom heim stóð ég vel að vígi í enskunni og var því í 10. bekk í fjarnámsáfanga í ensku við VMA,“ segir Kormákur.

Um tíma leit ekki út fyrir að hársnyrtiiðn yrði kennd á haustönn 2020. „Þá velti ég því fyrir mér að fara í grunndeild matvælabrautar VMA og fara síðan í framhaldinu í hársnyrtiiðn. En úr þessu rættist og ég gat því farið beint í hársnyrtiiðn eftir 10. bekk Brekkuskóla, eins og ég hafði stefnt á. Í stuttu máli sagt finnst mér þetta æðislegt nám og það stendur fyllilega undir væntingum,“ segir Kormákur og bætir við að hann hafi í huga að taka viðbótarnám til stúdentsprófs. „Mig langar síðan til að fara til útlanda í háskólanám í dansi og leiklist. Ég æfi dans í Steps hér á Akureyri og hef gert síðan 2016. Ég tók þó hlé í dansinum þegar ég bjó með fjölskyldunni í Brighton en hélt áfram eftir að við fluttum heim,“ segir Kormákur.

Kormákur hefur lengi haft áhuga á leiklist. Þegar hann var í grunnskóla var hann um tíma í Leiklistarskóla LA og steig þá á leiksviðið. En fyrsta stóra leiklistarverkefnið var uppfærsla Leikfélags VMA á Grís. Síðustu sýningarnar voru um helgina. „Mér fannst frábært að taka þátt í þessu verkefni og leikhópurinn vann mjög vel saman. Að leika í Grís er örugglega eitt það allra skemmtilegasta sem ég hef gert,“ segir Kormákur sem túlkaði hlutverk Doodys í sýningunni. „Ég kynnti mér vel Grease kvikmyndirnar og einnig sá ég upptöku af uppfærslu Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki á verkinu, sem Pétur Guðjónsson leikstýrði einnig. Ég las bæði íslenska og enska útgáfu handrits af leikritinu og reyndi þannig að nálgast karakter Doodys. Ég get ekki sagt að við Doody eigum margt sameiginlegt, nema kannski brosið! Ég spila ekki á gítar, eins og Doody, og hef heldur ekki áhuga á bílum,“ segir Kormákur.