Fara í efni

Opin getraun í dag á Pí-deginum - degi stærðfræðinnar á Íslandi

Hér er getraunin sem efnt er til í VMA í tilefni af Pí-deginum/degi stærðfræðinnar á Íslandi.
Hér er getraunin sem efnt er til í VMA í tilefni af Pí-deginum/degi stærðfræðinnar á Íslandi.

Í dag, 14. mars, er hinn alþjóðlegi Pí-dagur eða dagur stærðfræðinnar. Í tilefni dagsins efna stærðfræðikennarar í VMA til getraunar og eru flott verðlaun í boði.

En hvað er Pí? Á vefsíðunni stærðfræði.is (staerdfraedi.is) er eftirfarandi skilgreining á þessari leyndardómsfullu tölu úr stærðfræðinni: 

Pí er óræð tala sem byrjar á 3,14 og þess vegna er þessi dagur haldinn 14. mars ár hvert. Pí er “nákvæmlega” talan sem þú færð þegar þú ert með hring og tekur ummál hringsins og deilir í það með þvermáli hringsins.
Þrátt fyrir að byrjað hafi verið að nota pí 200 árum fyrir Krist, þá er stutt síðan byrjað var að halda upp á þennan dag. Því má þakka eðlisfræðingnum Larry Shaw. En árið 1988 langaði honum að bæta starfsandann þar sem hann var að vinna og bjóða upp á ávaxtabökur (e. pie, hljómar eins og pí borið fram á ensku) og te þennan dag, 14. mars klukkan 1:59 eftir hádegi (þar sem næstu stafir á eftir 3.14 eru 159). Nokkrum árum seinna áttaði Shaw sig á því að 14. mars væri einnig fæðingardagur Albert Einsteins og tók hann þá að halda árlega upp á þennan merkilega dag.

Fleiri og fleiri áhugamenn um stærðfræði tóku upp á að halda upp á þennan merkilega dag og árið 2009 var þessi dagur orðinn mjög vinsæll um allan heim.
27. september árið 2000 var fyrsti dagur stærðfræðinnar á Íslandi. Síðan færðist sá dagur í að vera fyrsti föstudagur í febrúar ár hvert. Það var  síðan ákveðið að dagur stærðfræðinnar á Íslandi yrði alltaf á pí deginum 14. mars.

En víkur nú aftur sögunni að Pí-deginum í VMA í dag. Í tilefni dagsins standa stærðfræðikennarar í skólanum fyrir getraun þar sem mynd af þátttakendur velta vöngum yfir þremur myndum af kubbum. Hér eru umræddar kubbamyndir og QR-kóði sem þarf að nota til þess að senda inn lausnir. Hver þátttakandi getur bara sent inn eina lausn og getraunin er aðeins opin í dag, 14. mars.

Dregið verður úr réttum lausnum og er í verðlaun gjafabréf fyrir tvo á DJ-grill og Nettó gefur þrjú spil í verðlaun, Ég veit, Sjónarspil og Alvöru skellur.