Opið hús og Vorhlaup VMA í dag
Það verður heldur betur margt um að vera í VMA í dag, þriðjudaginn 29. apríl. Opið hús verður í skólanum og á sama tíma verður ræst í Vorhlaup VMA.
Þessi tvenna á sama degi er að festa sig í sessi sem einn af stærstu viðburðadögum skólaársins í VMA.
Opið hús kl. 16:30-18:30
Opna húsið í skólanum verður frá kl. 16:30 til 18:30 og verður starfsfólk skólans á staðnum til að kynna námsleiðirnar sem nemendum standa til boða og gestum gefst tækifæri til að ganga um skólann og skoða aðstöðu og húsakynni. Nemendur í 9. og 10. bekk grunnskóla og forsjáraðilar eru sérstaklega boðnir velkomnir á opna húsið. Nemendur standa vaktina í vöfflubakstrinum við M01 og sjá til þess að enginn fer svangur heim.
Vorhlaup VMA
Vorhlaup VMA er fastur liður undir lok vorannar. Ræst er í hlaupið við austurinngang skólans kl. 17:30. Fyrst og fremst er þetta til gamans gert, að skokka í góða veðrinu og að njóta hollrar útiveru. En þetta er líka keppni. Keppt verður í grunnskólaflokki - 5 km, framhaldsskólaflokki - 5 km og 10 km og opnum flokki - 5 km og 10 km.
Skráningargjöld í hlaupið eru:
Grunnskóla- og framhaldsskólaflokkur: 500 kr.
Opinn flokkur: 3000 kr.
Skráning er á netskraning.is og er hægt að skrá sig til kl. 17:00 í dag – á keppnisdegi.
Allir keppendur frá frítt í sund í Akureyrarlaug að hlaupi loknu gegn framvísun hlaupanúmers.
Verðlaunaafhending verður í Gryfjunni í VMA (gengið inn að austan) kl. 18:30 og þar verður í boði hressing að hlaupi loknu. Auk verðlauna fyrir efstu sæti í flokkunum verður fjöldi útdráttarverðlauna.