Fara í efni

Opið hús á sérnáms-, starfs- og listnáms- og hönnunarbraut

Sjálfur Mick Jagger í einu af verkum listnámsnema.
Sjálfur Mick Jagger í einu af verkum listnámsnema.

Það líður að lokum vorannar. Síðasti kennsludagur er nk. föstudagur, 13. maí. Seinnipartinn í dag og kvöld, þriðjudaginn 10. maí, verður efnt til opins húss í skólanum þar sem gestum og gangandi gefst kostur á að sjá eitt og annað af því sem nemendur á starfsbraut, sérnámsbraut og listnáms- og hönnunarbraut hafa verið að vinna að á önninni.

Opið hús á listnáms- og hönnunarbraut er fastur liður í annarlok en nú bætist einnig við opið hús á starfsbraut og sérnámsbraut.

Nemendur og kennarar starfs- og sérnámsbrautar bjóða öllum að koma í skólann kl. 17:00-19:30, skoða húsakynnin í D-álmu skólans (vestasti hluti skólabyggingarinnar) og sjá brot af því sem nemendur hafa verið að fást við á önninni. Starfsfólk verður á staðnum. Bæði verður opið að vestan og norðan.

Opna húsið á listnáms- og hönnunarbraut verður kl. 19.30 til 21:00. Þar sýna nemendur ýmislegt af því sem þeir hafa verið að vinna núna á vorönninni. Óhætt er að segja að fjölbreytnin hefur verið í fyrirrúmi. Nemendur og kennarar verða á staðnum. Gengið inn að norðan, sýningin er á jarðhæð við innganginn en þó fyrst og fremst á efri hæðinni í húsakynnum listnáms- og hönnunarbrautar.