Opið hús á listnáms- og hönnunarbraut í kvöld
Nú líður að lokum haustannar (síðasti kennsludagur er nk. þriðjudagur - 9. desember) og þar með er uppskerutími á öllum námsbrautum, hvort sem það er með verkefnaskilum, prófum, smíðaverkefnum eða öðru. Á listnáms- og hönnunarbraut er löng hefð fyrir því undir lok hverrar annar að nemendur sýni afrakstur vinnu sinnar á opnu húsi.
Í kvöld, fimmtudaginn 4. desember kl. 19:30 til 21:00, er komið að opnu húsi á listnáms- og hönnunarbraut (gengið inn að norðan). Sem endranær verður fjölbreytnin í fyrirrúmi á sýningunni - málverk, teikningar, skúlptúrar o.fl.
Nemendur og kennarar hafa síðustu dægrin unnið markvisst að því að ljúka sinni vinnu þannig að allt verði klárt þegar opna húsið hefst kl. 19:30 í kvöld.
Hér eru nokkur sýnishorn af verkum sem verða til sýnis í kvöld.
Allir eru hjartanlega velkomnir á opna húsið á listnáms- og hönnunarbraut.