Fara í efni

Ómetanlegur stuðningur Össurar

Hörður Óskarsson brautarstjóri málmiðnbrautar VMA segir nemendum sínum í grunndeild frá gjöf Össurar…
Hörður Óskarsson brautarstjóri málmiðnbrautar VMA segir nemendum sínum í grunndeild frá gjöf Össurar til brautarinnar.

„Þetta er gríðarlegur og ómetanlegur stuðningur,“ segir Hörður Óskarsson, brautarstjóri málmiðnbrautar VMA, um gjöf stoðtækjafyrirtækisins Össurar í Reykjavík til brautarinnar á dögunum. Í henni voru m.a. svokallaðir rennslisplattar, stungustál, stungufjaðrir, fræsarar, sérstakir endafræsarar, verkfærahaldarar o.fl. Um er að ræða búnað sem Össur notar við framleiðslu sína en getur ekki notað aftur og aftur. Allur þessi búnaður kemur hins vegar að afar góðum notum í fræsivélar og rennibekkina í VMA.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Össur leggur málmiðnbrautinni lið. Hörður rifjar upp að samstarfið við Össur hafi verið í meira en áratug og margoft hafi fyrirtækið gefið málmiðnbrautinni eitt og annað sem nýtist vel í kennslunni. Einnig hefur Össur látið brautinni í té afgangsbúta af títaníumblönduðu áli sem fyrirtækið notar í framleiðsluvörur sínar. Allt nýtist þetta afar vel í verklegri kennslu í málmsmíðinni í VMA.

Össuri sendir VMA hugheilar þakkarkveðjur fyrir ómetanlegar gjafir og stuðning við málmiðnbraut skólans.