Fara í efni

Okkur tókst það!

Valur Freyr Sveinsson flytur ávarp sitt í Hofi.
Valur Freyr Sveinsson flytur ávarp sitt í Hofi.

Valur Freyr Sveinsson, sem útskrifaðist af vélstjórnarbraut VMA, ávarpaði brautskráningarhátíðina fyrir hönd brautskráningarnema:

Góðir hálsar, nær og fjær, útskriftarnemar, starfsfólk skólans og gestir!

Ég hef verið með hnút í maganum undanfarna daga, þó aðallega vegna þess að ég vissi ekki hvað ég átti að skrifa, eða öllu heldur hvar átti að byrja, hvernig er hægt að skrifa ræðu um svo stórfenglegan tíma sem er styttri en klukkutími.

Jú, þá er stiklað á stóru og hjá mér, eins og hjá öllum öðrum, hafa verið hápunktar og lágpunktar. Á öðru ári mínu í VMA féll ég í helmingnum af áföngunum, ég var blankur í febrúar en allt fékk það að falla í stað góðra tíma með góðum vinum og í dag sé ég alls ekki eftir því.

Ég fækkaði áföngunum á þriðja ári og gekk þá betur í náminu. Ég var þó aftur blankur í febrúar og orðinn frekar þreyttur á þessu þar sem ég sá ekki fyrir endann á náminu. Ég íhugaði vel að taka mér pásu á náminu en þolinmæðin réði ríkjum í þetta sinn.

Á fjórða ári réð ég mig í tvær vinnur og byrjaði í hljómsveit. Það var því nóg að gera utan skólans en þetta var bara hvatning til að standa mig betur í náminu. Mér gekk því álíka vel og á fyrsta árinu enda var erfitt að toppa metnaðinn sem maður hafði þá, þið ættuð að þekkja þetta!

Fimmta árið og ég byrjaði að mjaka mér inn í félagslíf innan skólans. Ég spilaði á tónleikum sem voru haldnir í Gryfjunni í VMA og kynntist þar frábærustu manneskju sem ég hef nokkurn tímann kynnst.

Sjötta árið var að mínu mati algjör viðsnúningur þar sem ég réð mig í tvær stöður innan félagslífs skólans. Þetta minnir mig á fyrri ár skólans þar sem ég hafði velt fyrir mér hvernig nemendur gátu gefið sér tíma til að sitja í stjórn Þórdunu, mæta á fundi einu sinni í viku og halda hina og þessa viðburði. Ég, sem annað hvort hríðféll í náminu eða nýtti allan minn tíma í að ná því skildi ekkert í þessu.

En á sjötta árinu réð ég mig í tvær stöður innan félagslífsins og sat þar með í stjórn Þórdunu, nemendafélags skólans, ásamt því að vera formaður tónlistafélagsins Þryms. Ég setti upp jólatónleika, var með í uppsetningu söngkeppni VMA og aðstoðaði við sýningu leikritsins það árið. Ekki skal gleyma því að ég var enn í tveimur vinnum með þessu öllu saman svo það kemur kannski ekki á óvart að það var ekki mikill tími til að sinna heimilisverkum.

Þetta var minn besti tími í framhaldsskólanum og það tók mig sex ár að komast þangað og ég öðlaðist þann skilning að það er ekkert auðvelt að vera í nemendafélagi með náminu. En maður lætur það virka, því það er svo gaman, svo ég tali nú ekki um hvað maður lærir mikið af því, en ég hef líklega lært álíka mikið af þessu eina ári í nemendafélaginu og á mínum sjö árum í vélstjórnarnáminu.

Sjöunda árið og covid hefur gengið í garð. Við höfum öll upplifað það á eigin skinni hvaða áhrif heimsfaraldur hefur á daglegt líf fólks, en hjá mér gekk það mikið út á að mæta í skólann og drepa tímann. Ég segi þó fyrir hönd útskriftarnema hér í dag að við getum verið stolt af því að hafa komist í gegnum þetta. Og við getum nú líka verið stolt af kennurum fyrir að hafa komist í gegnum tómlegu fjartímana. Ég vil því gefa nemendum skólans og starfsfólki þess gott klapp fyrir að hafa barist í gegnum þennan heimsfaraldur.

Eins og má heyra á þessari sögu er margt hægt þegar viljinn og þolinmæðin er fyrir hendi. Allt tekur sinn tíma, en þegar markmiðinu er náð er maður þakklátur fyrir þetta allt saman. Ég vil þakka öllum þeim sem studdu við bakið á mér í gegnum þennan skóla, hvort sem það var í náminu eða félagsstörfum, og þeim sem unnu með mér við að setja upp þá frábæru viðburði sem ég kom að í félagslífinu. Ég vil þakka kennurum vélstjórnardeildar skólans fyrir að hafa gefið mér virðingu þegar ég hélt áfram að reyna að bæta mig, þrátt fyrir erfiða tíma á fyrri árum námsins.

Kæru útskriftanemar. Okkur tókst það! Ég vil hrósa ykkur fyrir að hafa klárað þetta en nú taka við nýir tímar og nýtt líf, vonandi covidlaust.