Öflugar kerrur til sölu!
Eins og vera ber keppast nemendur þessa dagana við að ljúka verkefnum sínum, bæði á bóknáms- og verknámsbrautum, enda lýkur kennslu um miðja næstu viku. Þegar kíkt var í kennslustund hjá stálsmíðanemum voru þeir að leggja lokahönd á smíði á tveimur kerrum sem báðar eru jafn stórar, 3 m langar og 1,5 m breiðar. Þessar kerrur eru til sölu og geta þeir sem hafa áhuga haft samband við Kristján Kristinsson, kennara á málmiðnbraut, til þess að fá upplýsingar um verð og aðrar hagnýtar upplýsingar. Kerrurnar verða til sýnis á lokaverkefnadegi stálsmíðanema nk. föstudag kl. 11:30 til 13:00. Annað hvort verða smíðagripir þeirra, kerrurnar þar með taldar, til sýnis á planinu norðan við húsnæði málmiðnbrautar eða inni í kennsluhúsnæði brautarinnar - veðrið ræður staðsetningu.
Það er komin rík hefð fyrir að verðandi stálsmiðir (níu nemendur eru að ljúka náminu) smíði slíkar kerrur á lokaönn sinni í náminu. Þær eru afar öflugar og víst er að hér hefur verið vandað til verka. Kerrurnar tvær eru eins að öðru leyti en því að hjólin er mismunandi stór og því er hærra undir kerruna með stærri hjólunum og hún hentugri til að tengja við jepplinga eða jeppa. Hin er upplögð fyrir fólksbíla- eða jepplingaeigendur.