Fara í efni

Óbreytt fyrirkomulag á kennslu í VMA

Mynd: Pexels
Mynd: Pexels

Þriðjudaginn 20. október taka í gildi breytingar á sóttvarnareglum á landsvísu. Þær breytingar hafa ekki áhrif á nám í VMA miðað við það skipulag sem hefur verið í gildi síðustu tvær vikur. 

  • Þeir áfangar sem hafa verið kenndir í staðnámi munu vera kenndir áfram í húsnæði skólans. 

  • Nemendur eiga alls ekki að mæta í kennslustund hafi þeir kvefeinkenni eða önnur einkenni Covid.

  • Grímuskylda er í öllum kenndum tímum í húsnæði skólans, óháð öllum nándarreglum þá nota allir grímu, alltaf.

  • Áhersla á handþvott og sprittun. 

  • Sótthreinsun á kennslustofum fer fram á milli nemendahópa. 

  • Þeir áfangar sem þegar eru komnir í fjarkennslu verða kenndir þannig áfram. Nemendur fá áfram upplýsingar frá kennurum áfanga um skipulag kennslunnar.

Hér má sjá skipulag náms í VMA eftir brautum. 

Á fimmtudag og föstudag er vetrarfrí (22. og 23. október). Kennarar hafa fengið skilaboð um það að ekki eigi að fara fram kennsla, verkefnavinna né námsmat á þessum tima. Njótið þess að vera í fríi. Farið varlega og passið ykkar persónulegu sóttvarnir. 

Varðandi nám í fjarkennslu

Áfangar í bóklegu námi hafa nú flestir verið færðir yfir í fjarkennslu. Gera má ráð fyrir því að þeir áfangar verði meira og minna kenndir í fjarnámi út önnina nema sóttvarnareglur breytist mjög mikið. Á þessu  tímapunkti virðast ekki vera í sjónmáli það miklar tilslakanir á sóttvarnareglum að nemendur í bóklegu námi fari að mæta í kennslustundir í húsnæði skólans. 

Allar þessar breytingar sem hafa orðið á námi og kennslu í skólanum hafa haft áhrif á líðan og verklag bæði nemenda og kennara ásamt því að hafa áhrif á það nám sem fer fram. 

Kennarar hafa þurft að breyta kennsluháttum og nemendur að tileinka sér nýjar leiðir í námi. Fyrir suma er þessi breyting einföld en fyrir aðra eru þessar breytingar að hafa áhrif á nám nemenda. Kennarar hafa gengið mjög langt í viðleitni sinni til að koma til móts við nemendur en þurfa á sama tíma að tryggja ákveðna yfirferð á námsefni áfanga.

Það eru nokkrir punktar sem þarf að hafa í huga sem nemandi í fjarnámi:

  • Skipulag getur verið mismunandi á milli áfanga. Verið viss um að hafa upplýsingar um skipulag námsins í hverjum áfanga fyrir sig t.d. hvaða tímar eru með mætingu samkvæmt stundatöflu og undir leiðsögn kennara. Það getur verið mismunandi á milli áfanga hvort það er mæting í tíma x1 í viku, x2 í viku eða x3 í viku. Kennarar eiga ekki að boða nemendur í kennslustundir utan stundatöflu áfangans. 

  • Verið virk í tímum þar sem kennari er með ykkur, notið þann tíma til að spyrja kennarann. 

  • Skipulag á heimanámi og verkefnavinnu. Nýtið tíma ykkar vel t.d. notið tímann í verkefnavinnu áfangans þegar ekki er mæting samkvæmt stundatöflu. Þótt ekki sé kennsla í tímanum þá þýðir það ekki frí, kennarar eru að gefa nemendum tækifæri til að vinna verkefni, lesa yfir námsefni eða leita nánari upplýsinga um ákveðið efni. 

  • Virðið skipulag kennara og tímasetingar á verkefnaskilum. Það er ekki hægt að ætlast til þess að kennarar svari tölvupóstum eða skilaboðum á kvöldin og um helgar. Né að bregðast við óskum um breytta skilafresti á verkefnum.