Fara í efni

Nýtt einkennismerki Þórdunu

Hið nýja einkennismerki Þórdunu.
Hið nýja einkennismerki Þórdunu.

Þórduna – nemendafélag hefur tekið í notkun nýtt einkennismerki (lógó) fyrir félagið. Hönnuður þess er Skúli Bragi Magnússon og er Þórslíkneskið svokallaða í öndvegi í merkinu.

„Árni Þórður Magnússon, litli bróðir minn, sem er gjaldkeri Þórdunu, spurði mig hvort ég væri ekki til í að hanna nýtt lógó fyrir Þórdunu. Mér fannst það áhugavert og úr varð að ég gerði tvær útgáfur og þetta varð síðan fyrir valinu,“ segir hönnuðurinn, Skúli Bragi. Hann stundar nám í fjölmiðlafræði í Háskólanum á Akureyri en er auk þess starfsmaður í Átaki líkamsrækt og þjálfar einnig unga knattspyrnuiðkendur hjá KA. „Ég hef alltaf haft gaman af því að teikna og það er aldrei að vita nema maður skelli sér í grafíska hönnun eftir námið í háskólanum. Vinir og fjölskylda leggja í það minnsta að mér að gera það,“  segir Skúli Bragi og hlær.

Um þetta nýja einkennismerki segir Skúli Bragi að sér hafi fundist liggja beint við að tengja það við Þórslíkneskið, sem eins og kunnugt er er einkennandi fyrir skólann, enda fannst það snemma á 19. öld á Eyrarlandsholti. „Og síðan bjó ég til letrið. Mér fannst hvorkki ganga upp að hafa nútíma letur né rúnaletur og því fór ég þá leið að búa til letrið,“ segir Skúli Bragi.

Um Þórslíkneskið og fund þess segir svo á heimasíðu Þjóðminjasafnsins: „ Svokallað Þórslíkneski er einn merkasti gripurinn í grunnsýningu Þjóðminjasafns. Mannslíkanið er í sitjandi stöðu á lágu sæti, nakið með topphúfu á höfði. Karlinn heldur fyrir framan sig krosslaga hlut með báðum höndum. Styttan fannst árið 1815 eða 1816 hjá öðru hvoru Eyrarlandi við Eyjafjörð. Líkneskið er úr bronsi. Það vegur um það bil 115 grömm og er 6,7 sentimetrar á hæð. Það var í Forngripasafninu í Kaupmannahöfn í rúma öld en árið 1930 var því skilað heim til Íslands ásamt nokkrum fleiri íslenzkum gripum í tilefni  Alþingishátíðarinnar.“