Fara í efni

Nýt þess að starfa með ungu fólki

Guðrún Ásgrímsdóttir - Gússa hefur staðið vaktina í mötuneytinu í VMA síðan 2008.
Guðrún Ásgrímsdóttir - Gússa hefur staðið vaktina í mötuneytinu í VMA síðan 2008.

Guðrún Ásgrímsdóttir eða Gússa, eins og hún er oft kölluð, hefur staðið vaktina í mötuneyti VMA frá 2008 eða í hartnær sautján ár. Henni líkar starfið vel enda segist hún alltaf hafa notið þess að starfa með ungu fólki.

„Ástæðan fyrir því að ég hóf að starfa hér árið 2008 var sú að það vantaði fólk í afleysingar. Ég þekkti til Valmundar, sem þá rak mötuneytið, og hann fékk mig í afleysingar. Það teygðist úr þeim og ég hef verið hér síðan. Mér líkar mjög vel að vinna hérna, hér er góður starfsandi. Ég er í 75% starfi, frá klukkan hálf níu til hálf þrjú,“ segir Guðrún.

Guðrún er Þingeyingur, frá Hafralæk í Aðaldal. Hún flutti til Grímseyjar árið 1986 og bjó þar í tuttugu ár og starfaði m.a. í saltfiski og línuvinnu. Eiginmaður hennar er Grímseyingur og hann gerir út trillu frá Grímsey og þar eiga þau hús – til viðbótar við heimili þeirra á Akureyri. Guðrún segist kunna vel við sig í Grímsey og hún sé þar mikið á sumrin og skjótist líka út í ey þegar tækifæri gefist til yfir vetrarmánuðina.

„Helsta ástæðan fyrir því að ég hef verið svona lengi í þessu starfi hér í mötuneytinu er fyrst og fremst sú að ég nýt þess að umgangast ungt fólk. Það er blátt áfram og tekur sig ekki of hátíðlega. Ef ég ber saman ungt fólk í dag og þegar ég byrjaði hér hugsa ég að nemendur nú séu yfirvegaðri og kurteisari. Það var aðeins meiri galsagangur í þeim hér á árum áður.
Starfið er fjölbreytt. Við smyrjum brauðið sem við seljum hér en heiti maturinn sem við afgreiðum kemur úr mötuneytinu á heimavistinni. Í starfinu felast líka innkaup og þrif,“ segir Guðrún og bætir við að almennt sé þeim nemendum að fjölga sem nýta sér þjónustu mötuneytisins, nú séu á annað hundrað nemendur með annarkort.

En hver skyldi vera vinsælasti maturinn á matseðli mötuneytis VMA? Guðrún segir að eflaust sé það pizzan en ánægjulegt sé hversu öflugir fiskneytendur nemendur séu og alltaf njóti grjónagrauturinn klassíski mikilla vinsælda.